16.3.2010 | 01:23
Heimspeki - skýr hugsun
Í kvöld, mánudagskvöld, hlustaði ég á upptöku á Silfri Egils frá því á sunnudag. M.a. hlustaði ég á Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki við Háskólann í Bifröst. Framsetning hans og tal var að mínum dómi öfgafullt og mótsagnakennt svo nokkrum undrum sætir af hans hálfu. Er mér illskiljanlegt hvers vegna heimspekingur flytur mál sitt með þessum hætti, en heimspekingar eiga að mínum dómi að vera yfirvegaðir og tala skýrt - af því að þeir hugsa skýrt.
Heimspekingurinn gerði m.a. lítið úr andófi gegn því óréttlæti sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar telja að felist í kröfu um að íslenskur almenningur skuli greiða Bretum og Hollendingum útlagðan kostnað vegna ICESAVE. Kallaði hann þetta andóf þjóðvarnarhyggju eða þjóðvörn sem bæri vott um einangrunarhyggju, vorkunnsemi og undarlegan grátkór. Í næsta orði segir hann svo að einangrunarhyggja Íslendinga væri skiljanleg og vel kynni að vera að Íslendingar hefðu verið hlunnfarnir og illa með þá farið. Má þá ekki mótmæla þeirri meðferð!
Þá talaði hann um gildishlaðna umræðu, sem hefði verið horfin úr þjóðfélaginu, fjandskaparumræðu, þar sem því væri m.a. haldið fram að viss öfl í þjóðfélaginu væru meðvitað að vinna gegna hagsmunum þjóðarinnar. Með þessu væri verið að saka fólk um mjög alvarlega hluti.
Í næsta orði segir heimspekingurinn svo, að það valdi sér vonbrigðum og áhyggjum þegar öfl lengst til vinstri og lengst til hægri læsi sig saman og berjist fyrir sameiginlegu máli. Þá sé eitthvað undarlegt á ferðinni. Með þessu er heimspekingurinn að saka fólk - lengst til hægri og lengst til vinstri - um alvarlega hluti. Það vekur einnig nokkra furðu að heimspekingurinn skulu ekki þekkja dæmi um það úr sögu þjóðarinnar eða heimssögunni, sem hann vitnaði gjarna til, að andstæð öfl hafa staðið saman þegar ógn eða hætta steðjaði að.
Til þess að taka þriðja dæmið um mótsögn í málflutningi Jóns Ólafssonar, má nefna að hann líkti þjóðaratkvæðagreiðslunni við kosningar í einræðisríkjum þar sem aðeins væri um einn flokk að velja, þjóðaratkvæðagreiðslan hefði ekki verið lýðræðisleg auk þess sem hún skýrði ekki neitt. Þessi orð heimspekingsins hljóma að vísu undarlega líkt og orð fjármálaráðherra á dögunum um hina sömu þjóðaratkvæðagreiðslu.
En það verð ég að segja þessum tveimur góðu drengjum, að sjaldan hefur verið skýrara í kosningum á Íslandi, að um tvo ólíka kosti var að velja: láta lög halda gildi sínu eða fella þau úr gildi - og að þjóðaratkvæðagreiðslan leysti margan vanda. Það má svo hugsanlega velta því fyrir sér á heimspekilegan, hlutlægan og yfirvegaðan hátt, hvers vegna tveir þriðju hlutar þjóðarinnar sögðu nei. En ef þjóðaratkvæðagreiðsla, sem á sér stoð í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, er orðin ólýðræðisleg, er farið að snúa flestum hlutum á haus og menn ættu að reyna að rétta sig af.
Í lok máls síns sagði Jón Ólafsson, að "heimspeki væri andóf gegn ríkjandi öflum" og þá heimspeki vildi hann stunda. Með þeim rökum hans má segja að þjóðvörn eða þjóðvarnarhyggjan, sem m.a. kom fram í afstöðu almennings í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sé heimspeki - einmitt sú heimspeki sem hann vill stunda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)