Íslensk umræðuhefð

Í kvöld horfði ég á KASTLJÓS þar sem alþingiskonurnar Ólína Þorvarðardóttir og Vigdís Hauksdóttir áttu að ræðast við um stöðu ríkisstjórnar og þjóðmál undir stjórn Þórhalls frá Kópaskeri. Ekki bættu konurnar og linmælti maðurinn að norðan íslenska umræðuheft, heldur voru þau trú hanaati sem hófst með nautaati Hannesar Hólmsteins og Marðar Árnasonar í árdaga svokallaðra umræðuþátta í íslenskum fjölmiðlum og töluðu lengst af öll í einu. Hvenær læra íslenskir stjórnmálamenn að talast við - og hvenær tekst RÚV að efna til umræðuþátta sem skipta máli? Spyr sá sem ekki veit.

Farsi í Þjóðleikhúsinu

Í kvöld sá ég uppfærslu Þjóðleikhússins á Gerplu í leikstjórn Baltasar Kormáks, Ólafs Egils Egilssonar og leikhópsins.  Þetta var sorgleg sjón. Hér er ekki um að ræða Gerplu HKL og því síður Fóstbræðrasögu heldur moðsuðu leikstjóranna og leikhópsins sem leggja meiri áherslu á brellur og skrípislæti en texta - að ekki sé talað um boðskap.

Í hléi ræddi ég við nokkur ungmenni sem sögðust ekki hafa lesið Gerplu og heldur ekki Fóstbræðrasögu og sögðust ekkert skilja í þessu verki og sýningin væri hundleiðinleg. 

Hver tími hefur sinn stíl og hver kynslóð sín viðhorf. Ef til vill er réttlætanlegt að færa bókmenntaverk og leikverk í nýjan búning og beita leikbrögðum sem eru ný af nálinni og nýstárleg, en slíkt verður að þjóna einhverjum tilgangi - þjóna verkinu.

Þessi sýning Þjóðleikhússins var hins vegar í mínum augum farsi, að vísu allvel gerður farsi af því að margir leikendur skiluðu verki sínu vel, þótt í ljós kæmi það sem sífellt er að verða meira áberandi, að ungir leikarar ráða illa við texta - skilja ekki textann - og framsögn þeirra er stórlega ábótavant.


Bloggfærslur 26. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband