Lausn á Icesave - ný sýn

Afstaðan til Icesave liggur ljós fyrir. Íslenska þjóðin vill ekki taka á sig skuldir gamla Landsbankans, enda var um einkafyrirtæki að ræða, og samkvæmt lögum og reglum ESB og landslögum á Íslandi er ekki unnt að skuldbinda þriðja aðila í slíkum viðskiptum. Því verður að leita annarra leiða.

Eðileg og sanngjörn leið blasir við. Bretar og Hollendingar fá allar eignir gamla Landsbankans. Að bestu manna yfirsýn nægja þessar eignir fyrir mestum - eða öllum lágmarksgreiðslum breska og hollenska ríkissjóðsins vegna endurgreiðslu til innstæðueigenda í löndunum tveimur. Engir vextir verða greiddir né heldur útlagður kostnaður breskra og hollenskra stjórnvalda. Með þessu hafa flestir innstæðueigendur í Bretlandi og Hollandi fengið tjón sitt bætt að mestu. Komi í ljós eftir fimm eða tíu ár að eignir gamla Landsbankans nægðu ekki fyrir lágmarksgreiðslum, er hugsanlegt að ríkisstjórnir landanna þriggja setjist að samningaborði og ræði málin í bróðerni án þess hótanir um hermdarverk og hryðjuverkalög vofi yfir.

Í bönkum á Íslandi er nægilegt fé til að endurreisa atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar. Til þess að bæta stöðuna þarf því engin erlend lán, enda eru erlend lán að drekkja þjóðinni, og til þess að bjarga drukknandi manni er ekki hellt ofan í hann söltum sjó. Hins vegar eru vextir of háir, eins og flestum er ljóst. Með því að lækka vexti og lána fé íslenskra innstæðueigenda – þar á meðal lífeyrissjóðanna - til heiðarlegra atvinnurekenda blasir við ný sýn.

Innviðir ríkisins eru sterkir. Menntun fólks er góð. Auðlindir landsins eru miklar. Kröfunni um ný grundvallarlög - nýja stjórnarskrá, verður fylgt eftir og krafist heiðarleika og gagnsæi í stjórnmálum og viðskiptum. Fjölmörg ríki vilja - og þurfa á að halda vörum sem Íslendingar geta framleitt. Við eigum því margra kosta völ. En við hengjum ekki bakara fyrir smið heldur refsum þeim sem sekir eru.


Bloggfærslur 7. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband