15.4.2010 | 11:14
Endurreisn Íslands
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er góð. Umræður á Alþingi lofa ekki góðu. Sumir þingmenn hafa lítið að segja, benda hver á annan, kenna öðrum um, ræða ávirðingar annarra, drepa málinu á dreif - og virðast lítið hafa lært.
Fyrir Alþingi liggja 600 - sex hundruð - mál sem seint verða afgreidd. Meðal þessara mála er frumvarp til laga um ráðgefandi stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána. Kjósa átti til þingsins í vor samhliða kosningum til sveitarstjórna. Það verður ekki.
Stjórnlagaþingið átti að fjalla um undirstöður stjórnskipunar og hugtök og valdmörk löggjafarvalds og framkvæmdavalds, hlutverk forseta, sjálfstæði dómstóla, kosningar og kjördæmaskipan og þátttöku almennings í lýðræðislegri stjórn landsins.
Í ljósi þess sem gerst hefur og í ljósi sundurlyndis alþingismanna og getuleysis er rétt að kjósa stjórnlagaþing óháð Alþingi og kjósa fulltrúa persónulegri kosningu með landið sem eitt kjördæmi. Slíkt stjórnlagaþing almennings er fyrsta skrefið í endurreisn Íslands og lýðræðislegu skipulagi.
Bloggar | Breytt 16.4.2010 kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)