Lýðræði er hugsun

Þegar talað er um nýtt Ísland og nýtt lýðveldi á Íslandi er verið að óska eftir réttlátara þjóðfélagi þar sem heiðarleiki kemur í stað spillingar og lýðræði í stað flokksræðis. Með lýðræði er átt við lögbundinn rétt hvers einstaklings til þess að hafa áhrif á stjórn landsins og að allir séu jafnir fyrir lögunum.

Lög lands eiga að tryggja lýðræði á grundvelli þriggja meginstoða siðaðs samfélags: frelsis, jafnréttis og bræðralags, en með bræðralagi er átt við virðingu fyrir öllum einstaklingum, mannvirðingu án tillits til landamæra, litarháttar, skoðana eða trúarbragða.

Form lýðræðis er mikilsvert. Skilningur á lýðræði er ekki síður mikilsverður. Atkvæðagreiðsla á fjögurra ára fresti tryggir ekki lýðræði. Það gerir aðeins skilningur á lýðræði og lýðræðisleg hugsun.Til þess að treysta lýðræði þarf að taka upp kennslu í lýðræðislegri hugsun og lýðræðislegum starfsháttum í skólum landsins. Vísir að slíkri kennslu er þegar í sumum leikskólum og grunnskólum og nokkrum framhaldsskólum. En betur má ef duga skal. Ein helsta von til þess að endurreisa traust og virðingu í samfélaginu og tryggja framtíð þjóðarinnar er góð menntun – góðir skólar.

Þjóðin þarf á að halda traustum stjórnmálaflokkum - stjórnmálamönnum sem unnt er að treysta. Til þess að þjóðin geti borið traust til stjórnmálamanna, stjórnmálaflokka og fulltrúa á Alþingi þurfa stjórnmálamenn, stjórnmálaflokkar og alþingismenn, karlar og konur, að vera sér þess meðvituð, að Alþingi þiggur vald frá þjóðinni: að uppruni valdsins er hjá þjóðinni.

Til þess að tryggja lýðræði á Íslandi eftir áföll síðustu missera þarf að halda sérstakt stjórnlagaþing sem kjörið er persónukjöri með landið allt sem eitt kjördæmi. Stjórnlagaþingið semur frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem hæfi kröfum tímans og tryggi frelsi allra, jafnrétti á öllum sviðum og skýlausa þrískiptingu valds. Frumvarp stjórnlagaþingsins að nýrri stjórnarskrá – nýjum grundvallarlögum – yrði síðan lögð fyrir í þjóðaratkvæði.

Fyrsta grein í stjórnarskrá nýs lýðveldis á að fjalla um mannvirðingu og mannréttindi og önnur greinin um að endanlegt vald sé hjá þjóðinni. Síðan komi þau atriði er varða form lýðræðis í nýju lýðveldi á Íslandi.


Bloggfærslur 29. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband