3.6.2010 | 22:52
Nýju fötin keisarans
Allir þekkja ævintýrið um nýju fötin keisarans eftir H. C. Andersen, ævintýrið um keisarann sem var svo hrifinn af fínum fötum að hann eyddi öllu fé sínu í föt. Dag einn komu til keisarans tveir svikahrappar sem sögðust geta ofið fegursta klæði sem hugsast gæti en hefði þann eiginleika að hver sá sem væri heimskur og dómgreindarlítill gæti ekki séð það.
Keisaranum fannst þetta freistandi tilboð. Með því að eignast slíkt klæði gæti hann greint í sundur þá sem væru heimskir og dómgreindarlitlir og hina sem væru skynsamir og gætu gegnt embættum í ríki hans. Hann fékk svikahröppunum því fé, herbergi til þess að vefa í, silki, pell og purpura ásamt gullþræði sem þeir stungu í skjóður sínar.
Sagan um klæðið sem heimskir menn gætu ekki séð spurðist út og þegar keisarinn sendi gamla ráðgjafann sinn að líta eftir því hvernig vefurunum gengi, brá honum í brún, því að hann sá ekkert klæði heldur svikarana tvo sem sátu við tóman vefinn og þóttust vefa. Guð hjálpi mér, sagði gamli ráðgjafinn. Ég sé engan vef og ekkert klæði. En hann sagði ekkert en lést sjá klæðið fína.
Góðfús lesandi þekkir framhaldið. Þegar keisarinn gekk út á götu í nýju fötunum hrópaði lýðurinn: En hvað nýju fötin keisarans eru glæsileg, sitja vel og hvað slóðinn er stórkostlegur. En lítið barn hrópaði upp yfir sig undrandi: En keisarinn er allsber. Þá opnuðust augu hinna.
Atburðir síðustu vikna og úrslit kosninganna í Reykjavík minntu mig á ævintýrið um nýju fötin keisarans. En það var ekkert barn sem hrópaði: En keisarinn er allsber.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2010 | 12:25
Stríðsleikur yfir Íslandi
Í sólskininu í morgun heyrði ég urrið í þýsku stríðsþotunum sem geysast yfir höfuðborgina. Enn einu sinni vaknaði sú spurning hvers vegna þessar stríðsþotur eru hér.
Við gamlir friðarsinnar fyrirlítum þennan stríðsleik sem gerir góða drengi - og jafnvel góðar stúlkur að hrottafengnum skepnum. Þýsku þoturnar eru hér ekki til að verja okkur. Heimskir ofbeldismenn eru of langt í burtu til þess.
Til þess að verjast ofbeldismönnum heimsins á aðeins að vera einn her undir stjórn Sameinuðu þjóðanna. Alla aðra heri á að leggja niður og nota milljarðana, sem við það sparast, til þess að bæta heilsu og afkomu þeirra sem minna mega sín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)