Sviksemi, siðleysi og glæpir

Sviksemi í viðskiptum, óheilindi í stjórnmálum og mannlegum samskiptum, rógur og illt umtal nafnlauss undirmálsfólks í opnum netfjölmiðlum eru sorgleg dæmi um siðleysi og jafnvel glæpsamlegt athæfi.

Þegar biskup íslensku þjóðkirkjunnar er barnaníðingur og ofbeldismaður gegn konum, er hins vegar fokið í flest skjól. Ég stend höggdofa, lamaður og yfirkominn af sorg. Vondir eru samfélagsglæpir viðskiptaþjófa, svikulla stjórnmálamanna og rógbera, en glæpir gegn varnarlausum einstaklingum eru þúsund sinnum verri. Ef núverandi biskup og hollir ráðgjafar hans geta ekki fundið leið út úr þessum skelfingum, er rétt að skilja að ríki og kirkju, leggja þjóðkirkjuna niður.

Næst á eftir fjölskyldunni er skólinn mikilsverðasta stofnun samfélagsins, fremri Alþingi og dómstólum. Kirkjan kæmi svo þarna einhvers staðar á eftir, ef hún væri stofnun sem almenningur treystir. En eftir síðustu atburði treystir almenningur ekki kirkjunni og þjónum hennar.

Til þess að skilja rétt frá röngu og gott frá illu þarf skólinn að styðja við heimilin og kenna okkur að virða mannréttindi: frelsi, jafnrétti og bræðralag. Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá bjarga engu. Nýtt Ísland verður ekki til nema skilningur á grundvallaratriðum lýðræðislegrar siðfræði sé fyrir hendi. 


Bloggfærslur 23. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband