Hörgarnir í Hörgárdal

Margir telja Hörgárdal draga nafn af heiðnum blótstöðum, hörgum, þótt engar heimildir séu um slíka blótstaði í Hörgárdal né annars staðar á Íslandi. Á landnámsöld var heiðinn átrúnaður á undanhaldi og kristni farin að festa rætur á Íslandi. Einnig af þeim sökum er ósennilegt að Hörgárdalur dragi nafn af heiðnum blótstöðum, enda hafa þeir naumast sett þann svip á dalinn að hann dragi nafn sitt þar af.

Orðið hörgur er í norsku notað um kollótt fjöll með brattar hlíðar - „fjellnut, særlig med flat topp og bratte sider". Örnefnafræðingar í Noregi telja líka öll hörga-örnefni þar í landi eigi rætur að rekja til þessa orðs. Hörga-örnefni eru mörg í Noregi. T.a.m. eru milli Harðangursfjarðar og Sognsævar mörg fjöll sem bera sanfnið hörgur – horg, s.s. Veskrehorg, Grönahorg, Svartahorgi og Lönahorgi, skammt norður af Voss, og þar norður af er Horgadalen – Hörgadalur. Raunar eru Hörgadalir fjórir á Hörðalandi, þaðan sem flestir landnámsmanna komu.

Þegar siglt er inn Eyjafjörð og Hörgárdalur opnast á stjórnborða, blasa við fjöllin vestan Hörgárdals: nyrst Þrastarhólshnjúkur, síðan Staðarhnjúkur og Fálkahaus sem mynda burstir í kollóttum og bröttum fjöllunum ofan Möðruvalla. Innar eru Lönguhlíðarfjall, Högg og Slembimúli, Grjótárhnjúkur og Háafjal. Öll þessi fjöll minna á hörgana á Hörðalandi.

Sennilegt er því, að fjöllin vestan Hörgárdals séu hörgarnir, sem gáfu dalnum nafn í upphafi og hafi minnt norsku landnámsmennina á hörgana heima í Noregi. Dalurinn hefur upphaflega heitið *Hörga-dalur, eins og dalirnir á Hörðalandi, eftir fjöllunum sem enn setja svip á dalinn og greina hann frá öðrum dölum við Eyjafjörð. Síðar hefur fólk tekið að kalla dalinn Hörg-ár-dal eftir *Hörg-a-á, á sama hátt og einstaka maður er farinn að tala um *Fnjósárdal eftir Fnjóská í stað þess að kalla dalinn Fjóskadal, eins og hann hefur heitið frá upphafi, nefndur eftir fnjóskunum, þurrum og feysknum trjástofnum sem enn setja svip á Fnjóskadal. Hörgarnir í Hörgárdal standa því enn – og hafa staðið í tíu þúsund ár.


Bloggfærslur 26. nóvember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband