Hvað gerir Íslendinga að Íslendingum

Í fyrradag var fullveldisdagur Íslendinga, en eins og lesendur vita, varð Ísland frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku 1. desember 1918. Sumir halda því að vísu fram, að Ísland hafi ekki fengið fullt sjálfstæði fyrr en með stofnun lýðveldis 17. júní 1944. Hafa þeir e.t.v. eitthvað til síns máls, því að fullveldi felur í sér, að þjóðin – eða kjörnir fulltrúar hennar – fer með æðstu stjórn ríkisins, þ.e.a.s. löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald á ákveðnu landssvæði sem tengt er ákveðnum hópi fólks, þjóðinni.

Eftir áratuga umræðu um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu og Evrópusambandinu vita hins vegar fáir, við hvað átt er með sjálfstæði þjóðar. Fyrir hálfri öld sagði Gylfi Þ. Gíslason, að til þess að tryggja fullveldi sitt yrðu Íslendingar að láta af sjálfstæði sínu. Fæstir skyldu þessi orð þá, og fáir gera það enn. En ljóst er, að sumir mætir menn álíta, að til þess að tryggja fjármál og afkomu þjóðarinnar, öryggi hennar og viðskipti í framtíðinni verði Íslendingar að gerast aðilar að Evrópusambandinu og láta af hendi þætti, sem áður töldust til fullveldis, s.s. hluta af löggjafarvaldi, hluta af dómsvaldi og ákveðin yfirráð yfir landi og jafnvel ráðstöfun á auðlindum.

En það var ekki ætlunin í þætti um íslenskt mál á fullveldisdaginn 2011 að tala um sjálfstæði og fullveldi né heldur um aðild að Evrópusambandinu, þótt full ástæða væri til, heldur að svara spurningunni: Hvað gerir Íslendinga að Íslendingum? Þessari spurningu er ekki auðvelt að svara – frekar en öðrum spurningum sem skipta máli.  Þjóðerni er háð ýmsu, s.s. uppeldi, stöðu, viðhorfum og fæðingarstað.

En til þess að flækja málið ekki frekar með málalengingum, tel ég einfalda svarið við spurningunni, að það sem gerir okkur að Íslendingum er tungumálið. Í þessu felst ekki þjóðernishroki, þ.e.a.s. lítilsvirðing fyrir öðrum þjóðum eða fólki af öðru bergi brotið – þvert á móti. Aðrar þjóðir eiga sitt tungumál, mikilfenglegt tjáningartæki, sem gerir það fólk að því sem það er. Tungumálið og hugsunin, sem þar býr að baki, er dýrmætasta eign sérhvers einstaklings og sérhverrar þjóðar ásamt landinu og sögu þjóðarinnar, en í sögu þjóðar varðveitist hugsun hennar og minning. Því ber okkur að hafa móðurmál okkar í heiðri, virða landið og sögu þjóðarinnar – ekki aðeins á fullveldisdaginn heldur alla daga. Með því höldum við virðingu okkar sem einstaklingar og þjóð.


Bloggfærslur 3. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband