17.2.2011 | 11:15
ICESAVE er ekki lokið - nú er ballið að byrja
Sagt er að ICESAVE sé lokið. Það er þjóðlygi. ICESAVE er að byrja. Hingað til hafa menn - karlar og konur - rætt um málið oftast af lítilli þekingu. Nú fá menn - karlar og konur að sjá alvöru lífsins, þegar ríkissjóður greiðir 26 milljarða í vexti af höfuðstól sem talinn er 600 milljarðar. Og svo er verið að skera niður graut í skólum og fella niður kennslu í lífsleikni.
Undarlegt er að ekki skuli hafa vrið beðið eftir því, hver niðurstaða verður í uppgjöri á eignasafni Landsbankans þ.e.a.s. hvað stendur eftir þegar tekin hefur verið afstaða til krafna einstaklinga, félaga og stofnana í Bretlandi og Hollandi sem lagðar hafa verið fram.
Þegar fyrir liggur, hvers virði eignasafn Landabankans er, kæmi til greina að ríkisstjórn í skjóli Alþingis (sem þiggur vald sitt frá þjóðinni) gengi til samninga við bresk og hollensk yfirvöld. Hins vegar var fásinna að ganga nú til samninga. Vonandi vita og skilja alþingismenn og ráðherrar hvað þeir voru að gera í gær. Ég skil það ekki.
Ein rökin eru þau, að íslenskur almenningur beri ábyrgð á því að almenningur í Bretlandi og Hollandi var svikinn. Þarna er öllu snúið á haus. Almenningur, hvar sem er í heiminum, má ekki og á ekki að bera ábyrgð á glæfrum einkafyrirtækja. Þá er ekki um einkafyrirtæki að ræða heldur einkavæddan gróða og ríkistryggt tap.
Önnur rök eru þau, að Íslendingar eigi að lifa í sátt við aðrar þjóðir, virða alþjóðleg lög og samninga. Það er rétt. Hins vegar stendur hvergi í alþjóðlegum lögum að almenningur eigi að borga fyrir óreiðumenn enda tíðkast það ekki úti í hinum stóra heimi. Það á aðeins að gilda fyrir okkar litla íslenska heim. Við erum svo litlir.
Þriðju rökin eru þau, að Íslendingar einangrist á fjármálamarkaði, fái ekki lán og enginn kaupi íslenska vöru. Þetta er rangt, enda hefur það ekki verið. Fjármagnið auðvaldið leitar eftir hagstæðum viðskiptum og eftirsóttri vöru. Við eigum vöru sem auðveld er að selja: hreina matvöru, hreint land og hreina orku. Við skulum því halda okkur hreinum. Og þjóðin á að fá að taka afstöðu til ólaganna frá því í gær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)