Að hengja bakara fyrir smið

Íslenskum almenningi ber ekki að greiða skuldir einkafyrirtækja, frekar en almenningi annarra þjóða. Frjáls samkeppni væri þá lítils virði. Af þeim sökum einum ber að fella samning um ICESAVE III 9. apríl n.k.

Talað er um „siðferðilega ábyrgð” þjóðar - merkingarlaus orð. Þjóð getur ekki borið kollektífa ábyrgð: verið sek um brot eins manns eða fárra einstaklinga. Kollektíf ábyrgð hefur að vísu verið lögð á eina þjóð í lok tveggja heimsstyrjalda. Slíkt heiftarranglæti réttlætir ekki nýtt ranglæti.

Talað er um, að ríkið beri ábyrgð á Tryggingarsjóði innistæðueigenda. Það er rangt. Í lögum er mælt fyrir um að sjóðurinn skuli fjármagnaður af fjármálafyrirtækjum. Hvergi í lögum né Evróputilskipunum er gert ráð fyrir að almenningur beri þar fjárhagslega ábyrgð.

Talað er um, að til að vinna traust verði Íslendingar að standa við skuldbindingar sínar. Það eiga Íslendingar að gera – eins og aðrar þjóðir. En þjóðin hefur ekki skuldbundið sig til þess að greiða skuldir einkafyrirtækja. Það hefur heldur aldrei aukið virðingu nokkurs, karls eða konu – því síður heillar þjóðar - að láta undan hótunum, svo ekki sé sagt hótunum yfirgangsmanna.

Talað er um, að Íslendingum veitist erfitt að afla fjármagns til arðbærra verkefna. Það er rangt. Fjármagn leitar eftir arðbærum verkefnum – fer ekki í fýlu. Íslendingar eiga auk þess auðlindir sem sífellt verða eftirsóttari og ef þjóðin eignast djarfhuga og réttsýna leiðtoga, þarf hún engu að kvíða. Auk þess er nægt fjármagn í landinu – en því er ranglega stýrt.

Hengjum ekki bakara fyrir smið. Það er liðin tíð.


Bloggfærslur 25. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband