12.1.2012 | 09:09
Gleðimaður og gleðikona
Talað er um að karlmenn séu gleðimenn og kona gleðikona. Eins og lesendur vita, endurspeglar tungumálið afstöðu samfélagsins til manna og málefna og breytist eftir því sem samfélagið málsamfélagið breytist.
Afstaða samfélagsins kemur m.a. fyrir í orðum sem notuð eru um konur annars vegar og karlmenn hins vegar. Talað er um að karlmaður sé gleðimaður. Er þá átt vi glaðsinna karlmann sem vekur aðdáun og heillar með sögum og hnyttiyrðum, og það er eftirsóknarvert að vera gleðimaður.
Þegar talað er um gleðikonu er annað uppi á teningnum. Hún er ekki mikils virt og kölluð lauslát, lausgirt og nefnd hóra eða skækja, dræsa, dækja, flyðra, gæra, mella, portkona, púta, vændiskona og lítils virt. Karlmaður, sem kemur víða við, nýtur kvenhylli - er kvennamaður.
En hvernig er orðið gleðikona hugsað? Naumast er mikil gleði í því fólgin að vera gleðikona, enda þótt hún kunni að geta notið kynlífs. Hún stundar þessa iðju ekki til þess að auka sér gleði; því síður eykur þetta henni hamingju eða virðingu, þótt sögur fari af einstaka auðugri og jafnvel virtum gleðikonum úti í hinum stóra heimi. Starf gleðikonunnar er neyðarbrauð. Að baki býr ofbeldi, mansal, þrældómur og kynlífsþrælkun. Hugsunin að baki orðinu gleðikona er kona sem veitir manninum gleði. Í þessu orði, sem og mörgum öðrum orðum málsins, kemur því fram afstaða samfélagsins oft afstaða karlmanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)