16.1.2012 | 11:55
Heimsljós - jólasýning Þjóðleikhússins
Enginn íslenskur rithöfundur á síðustu öld stenst samjöfnuð við Halldór Laxness. Þekking hans og innsæi, dirfska, orðvísi og víð veraldarsýn tekur öðru fram. Hann var skáld minnar kynslóðar, en virðist síður höfða til ungu kynslóðarinnar, a.m.k. ekki þess hluta hennar sem alinn er upp við sýndarveruleika bandarískra kvikmynda.
Ef til vill væri ástæða til þess að kynna ungu kynslóðinni enn frekar heim Halldórs Laxness til þess auka henni gagnrýni og opna henni víðari sýn. Ein leiðin til þess er að flytja verk hans á leiksviði eins og Þjóðleikhúsið hefur gert áratugum saman, síðast með eftirminnilegri uppfærslu á Íslandsklukkunni, sérstæðri sýningu á Gerplu og nú með áhrifamikilli sýningu á sögu Ólafs Kárasonar.
Ekki er vandalaust að koma mikilfenglegum fjórleik Halldórs Laxness um skáldið Ólaf Kárason til skila í einni leiksýningu. Þetta mikla verk fjallar um lífið og ástina, um manninn og guð, um kúgun, svik og ánauð og um vonina, fegurðina og kærleikann og hinn breyska og vanmáttuga einstakling og baráttu hans fyrir réttlæti og góðvild.
Aðalpersónan, Ólafur Kárason, skáldið sem ber heiminn á herðum sér, hefur sterka skírskotun til Krists, ljóss heimsins, mannssonarins sem ber allar syndir heimsins og á móður en engan föður nema föðurinn á himnum.
Kjartani Ragnarssyni hefur ásamt leikurum og öðru hæfu starfsfólki sínu tekist að gera sýningu þar sem orðlist Halldórs Laxness nýtur sín og kjarni fjórleiksins kemur fram, vanmáttug barátta mannsins fyrir réttlæti og jöfnuði, þráin eftir ást og leitin að guði.
Með þessari sýningu hefur Kjartan Ragnarsson enn einu sinni sýnt listræna hæfni sína og sýning hans ber vitni um að við eigum góða leikara og Þjóðleikhúsið hefur enn einu sinni gegnt því meginhlutverki sínu sem musteri íslenskrar tungu að sinna íslenskum skáldskap og íslenskum leikverkum.
Vonandi verður þessi sýning til þess að opna augu ungu kynslóðarinnar fyrir mikilfengleik íslenskra bókmennta og þá ekki sýst mikilverðu hlutverki Halldórs Laxness sem rithöfundar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)