22.3.2012 | 21:52
Skítlegt eðli og æðruleysisbænin
Gamall bekkjarbróðir lenti í slysi fyrir nokkrum árum raunar eins og íslenska þjóðin. Hann lamaðist fyrir neðan háls og er bundinn hjólastól. Það sem bjargaði honum við þetta áfall að eigin sögn, var æðruleysibænin: Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig það, sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því, sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli.
Stundum finnst mér eins og eina hjálp okkar í þessu kalda landi sé æðruleysisbæn. Íslenskir stjórnmálamenn eru lamaðir fyrir ofan háls og geta því ekki hugsað heila hugsun og lamaðir fyrir neðan háls og geta því ekki farið um landið og áttað sig á aðstæðum og litið á samfélagið sem eina heild.
Sagt er að mannskepnan sjái það sem hún vill sjá, heyri það sem hún vill heyra og skilji það sem hún vill skilja. Þetta er endurómur af orðum mannsins frá Nasaret þegar lærisveinar hans spurðu, hvers vegna hann talaði til manna í dæmisögum og hann sagði: Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. Sumir sjá svo aðeins hið skítlega í eðli.
En sem betur fer sjá ýmsir hið góða, og þótt alþingismenn séu margir ekki þingtækir og flestir stjórnmálamenn duglausir, er margt gott að gerast í þessu fámenna þjóðfélagi á hjara veraldar. Gott starf er unnið í skólum landsins, allt frá leikskólum til háskóla og listamenn sýna hæfileika á fjölmörgum sviðum: leikarar, dansarar, söngvarar, hljómlistarmenn, málarar, myndlistamenn, rithöfundar, skáld - og hönnuðir.
Ef til vill væri hins vegar rétt að auka við æðruleysisbænina og hafa hana þannig: Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig það, sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því, sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli og sýn að koma auga á það sem gott er gert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)