25.3.2012 | 15:09
Þóru Arnórsdóttur fyrir forseta
Flestir eru sammála um að meginhlutverk forseta Íslands sé koma fram fyrir hönd þjóðarinnar allrar án undirmála og flokkadrátta og að vera sameiningartákn. Hlutverk forseta Íslands er ekki að vera leiðtogi afmarkaðs hóps eða sérstakra samtaka eða viðhorfa. Slíkt er hlutskipti stjórnmálamanna að takast á um hagsmuni og völd í samfélaginu.
Forseti Íslands á að vera hafinn yfir pólitíska flokkadrætti, hann á að leitast við af fremsta megni að vera forseti allra Íslendinga vinna að samhug fólks og samheldni og berjast gegn sundrungu, fjölmenntaður, vitur og hógvær, víðsýnn og umburðarlyndur.
Þóra Arnórsdóttir hefur allt til brunns að bera til þess að gegna starfi forseta: hún er vel menntuð, vel máli farin, laus við pólitíska flokkadrætti, hún er ung og ekki síst er hún móðir.
Konur hafa ávallt gegnt mikilsverðu hlutverki í íslensku þjóðfélagi, þær hafa um aldir annast uppeldi, uppfræðslu og menntun á heimilunum, þær sáu um velferð hjúa sinna og þær réðu öllu innan stokks, eins og sagt var um mikilhæfar konur á fyrri tíð. Nú hafa konur haslað sér völl utan heimilis í samræmi við aukna menntun sína og nýjan tíðaranda, en þær gegna áfram hinu mikilsverða hlutverki móður og húsfreyju.
Það boðar nýja tíma að fá á Bessastaði konu sem er ung móðir, víðsýn og vel menntuð. Með því yrðu ný gildi ráðandi, mjúk gildi: mannúð, umburðarlyndi, tillitsemi, sátt og eindrægni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)