12.8.2012 | 10:07
Ekki er öll vitleysan eins

Seðlabankastjóri sagði frá því á ársfundi Seðlabankans í mars, að bankinn undirbyggi útgáfu nýs peningaseðils. Ákvæðisverð seðilsins yrði tíu þúsund krónur. Mun þá átt við verðgildi hans. Ástæðan er verðlagsþróun og aukið seðlamagn í umferð eða með öðrum orðum veðbólga og sukk samfélagsins. Útlit seðilsins verður svipað og fyrri seðla, en myndefni tengt Jónasi Hallgrímssyni. Skartar seðillinn einnig lóunni, að því er seðlabankastjóri sagði.
Fróðlegt væri að vita hver fengið hefur þessa furðulegu hugmynd að skreyta seðilinn myndefni tengt Jónasi Hallgrímssyni. Hvers á Jónas Hallgrímsson að gjalda? Hann var einn fyrsti menntaði náttúrufræðingur Íslendinga og fyrsta íslenska nútímaskáld þjóðarinnar, listaskáldið góða og ástmögur þjóðarinnar? Líf hans og starf tengdist ekki peningum heldur öðrum verðmætum, eins og þeir vita sem eitthvað vita um Jónas.
Hvernig heilvita mönnum kemur til hugar að tengja myndefni á stærsta peningaseðli lýðveldisins Jónasi Hallgrímssyni og lóunni, er óskiljanlegt. Jónas Hallgrímsson var fátækur vísindamaður og skáld og hafi ef einhver fugl verið fuglinn hans var það þrösturinn: Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.
Fyrir hönd Jónasar Hallgrímssonar er hér með krafist lögbanns á útgáfu tíu þúsund króna peningaseðils Seðlabankans.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)