Hugsunin og tungumálið

Eitt af undrum sköpunarverksins er hugsun mannsins. Í kvæði eftir enska skáldið Shelley [d 1822] segir, að tungumálið hafi skapað hugsunina (Speech created thought). Undir þau orð má taka. Mannleg hugsun er óskiljanleg manninum, þótt í því kunni að felast mótsögn, en hugsunin er bæði margþætt og margslungin.

Í fyrsta lagi má nefna hina skapandi hugsun, sem er undirstaða í listum, mannskilningi og mannúð. Sumir halda því fram, að þar sem í Biblíunni er talað um að guð hafi skapað manninn í sinni mynd, sé átt við hugsunina. Það sé hugsunin, sem mannskepnan og guð eigi sameiginlegt og geri mannskepnuna líka guði. Í öðru lagi má nefna hina gagnrýnu hugsun, sem er undirstaða þroska og skilnings.

Í þriðja lagi má nefna hugsunina sem býr að baki tungumálinu. Haft er eftir franska stjórnmálamanninum Charles-Maurice de Talleyrand [d 1838], að málið hafi verið gefið manninum til þess að leyna hugsun sinni (La parole a été donnée à l’omme pour désguiser sa pensé). Þessi hugmynd kemur raunar fyrir miklu fyrr og er rakin til gríska heimspekingsins Plútarkosar [d um 120] þar sem hann segirað flestir Sófistar noti orðræður sínar til þess að breiða yfir hugsanir sínar. Þetta getur enn átt við bæði heimspekinga og stjórnmálamenn og hugsanlega fleiri.

Danski heimspekingurinn Søren Kierkegaard [d 1854] segir hins vegar að maðurinn virðist ekki hafa hlotið málið til að leyna hugsun sinni heldur til þess að leyna því að hann hugsar ekki neitt (Menneskerne synes ikke at have faaet Talen for at skjule Tankerne men for at skjule, at de ingen Tanker har.)

Ekki er vitað hvernig samband hugsunar og máls er, hvort mannskepnan hugsar í orðum eða í myndum eða hvort tveggja, allt eftir því hverjar aðstæðurnar eru og um hvað við erum að hugsa. Stundum förum við að vísu með orð í huganum til þess að rifja upp eitthvað, s.s. ljóð eftir Jónas Hallgrímsson, eða við erum að ráða við okkur hvað við ætlum að segja – hvernig við ætlum að orða hugsanir okkar. Hins vegar er ljóst að mikið af hugsunum okkar fer ekki fram í orðum heldur í myndum – hugarmyndum.

En hvernig sem sambandi hugsunar og mál er farið, er mikilsvert að hugsa áður en við tölum. Sagt er að skipta megi fólki í tvo hópa. Í fyrri hópnum eru þeir sem hugsa áður en þeir tala, í hinum eru þeir sem tala áður en þeir hugsa.


Bloggfærslur 10. september 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband