3.11.2013 | 09:40
Endurtekningar og ofnotkun
Endurtekningar eru algengar í ræðu og riti og eru þær gamalt stílbragð í ræðuflutningi á svipaðan hátt og þagnir, sem skipta afar miklu. Endurtekningar og þagnir eru í samræmi við forna mælskufræði, retórík, þar sem markmiðið er að sannfæra áheyrendur. Í mælskufræði gilda fimm grundvallaratrið. Í fyrsta lagi þarf að gera sér grein fyrir um hvað ætlunin er að tala. Í öðru lagi skipa efninu niður. Í þriðja lagi færa efnið í búning, þ.e.a.s. velja rétt orð orð. Í fjórða lagi var í hinni gömlu mælskufræði ætlast til þess að ræðan væri lögð á minnið, því að áhrifameira væri að geta horft í augu áheyrenda en stauta sig fram úr handritinu. Í fimmta lagi þarf að ákveða hvernig flytja á ræðuna, hvort tala á hægt eða hratt, virðulega eða spjalla með alþýðlegum hætti - svo og hvað öðrum brögðum á að beita, s.s. endurtekningum og þögnum. Endurtekningar geta hins vegar orðið það sem kallað er klifun: þegar stagast er á orði og orðasamböndum.
Fyrir fjórum áratugum skaut upp orðinu purkunarlaust sem notað var í tíma og ótíma. Elsta dæmi orðsins virðist vera frá árinu 1936 í grein í tímaritinu Blöndu sem Sögufélagið gaf út. Greinarhöfundur er Guðbrandur Jónsson prófessor sem skrifar um morðið á Appoloniu Schwartzkopf, konu Fuhrmanns amtmanns á Bessastöðum. Í greininni segir: Hér er auðvitað ekki átt við það, að það geti nokkurn tíma verið skynsamlegt eða rétt að fremja slíkt fólskuverk, heldur hitt, hvort svo mikið væri í aðra hönd, að runnið gæti tvær grímur á purkunarlaust fólk. Orðið purkunarlaus merkir samviskulaus eða blygðunarlaus. Síðasta dæmi um notkun orðsins á prenti er í uppvaxtarsögu Sigurðar A. Magnússonar Möskvar morgundagsins, sem út kom 1981. Þar stendur: Kófdrukkið par lá útá miðju túni og athafnaði sig purkunarlaust.
Orðið pólitískur er notað í ýmsum orðasamböndum s.s. pólitískt hæli, þ.e. skjól sem veitt er fólki sem orðið hefur að flýja ofsóknir í heimalandi sínu vegna stjórnmálaskoðana. Þá bera margir sér í munn orðasambandið pólitískt ákvörðunaratriði. Virðist þá átt við að ákvörðunin sé í höndum ráðandi stjórnmálaaflaafla eða stjórnmálamanna - pólitíkusa.
Orðið mannréttindi er einnig eitt af þessum orðum sem mikið er notað í þjóðmálaumræðu - klifað er á - og allt virðist orðin mannréttindi. Það eru mannréttindi að eignast barn, hvernig sem allt er í pottinn búið, jafnvel að eignast barn einn og óstuddur, eða fara ferða sinna, hvernig sem komið er fyrir fólki. Með orðinu mannréttindi hefur hins vegar verið átt við grundvallaratriði sem sérhver einstaklingur á að njóta óháð þjóðerni, kynþætti, kyni, trú og skoðunum, en þó einkum réttur til þess að njóta frelsi, öryggi og jafnræði.
Nokkrir stjórnmálamenn hafa tamið sér að nota orðasambandið til þess að því sé haldið til haga. Ekkert er athugavert við orðasambandið, en það telst klifun - ofnotkun - að nota orðasambandið í tíma og ótíma. Þá byrja margir stjórnmálamenn ræðu sína á orðunum: Það er alveg ljóst, enda þótt málið sé bæði flókið, umdeild og óljóst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)