6.1.2010 | 15:10
Íslendingar ætla að borga skuldir sínar, ekki skuldir óreiðumanna

Gömlu fjandvinirnir Ólafur Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson eru loks orðnir skoðanabræður. Davíð sagði í sjónvarpsviðtali 7. október 2008 að við Íslendingar ætluðum ekki að borga "skuldir óreiðumanna". Ólafur Ragnar hefur nú lagt ný lög Alþingis um ríkisábyrgð vegna Icesave í dóm þjóðarinnar en ljóst er að lögunum verður hafnað í þjóðaratkvæði. Þar með borgum við ekki skuldir óreiðumanna.
Bragð er að þá barnið finnur
Orð tíu ára drengs í fréttum ríkissjónvarpsins á dögunum gætu hins vegar orðið Íslendingum áminning og leiðarljós, þegar hann sagði, að það væri ekki réttlátt eða eðlilegt að almenningur borgaði skuldir einkafyrirtækja.
Hins vegar ber öllum að greiða skuldir sínar og ríkissjóði að greiða skuldir sem Alþingi hefur stofnað til. Svo einfalt er það.
Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir, sem lögðu fé inn á Icesave reikninga Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi í von um meiri arð vegna hærri vaxta, verða að láta sér nægja fé sem fæst við sölu eigna bankans þegar þar að kemur og komi engar vaxtagreiðslur eða fjárbætur frá ríkissjóði eða íslenskum almenningi þar í viðbót, nema óháður dómstóll telji ríkið bera skaðabótaábyrgð vegna vanrækslu eða mistaka við eftirlit eða aðhald íslenskra stjórnvalda.
Ofbeldi
Yfirgangur ríkisstjórna Bretlands og Hollands gagnvart ríkisstjórn og Alþingi stafar annars vegar af gamalli ofbeldishefð með þessum þjóðum og hins vegar af því, að Evrópusambandið er að klóra yfir galla á regluverki sínu.
Það sem hins vegar veikir stöðu Íslendinga nú er tvennt. Annars vegar gamli sundurlyndisfjandinn þar sem hver höndin er uppi á móti annarri, eins og oft áður. Hins vegar óþroskuð umræðuhefð stjórnmálamanna og fjölmiðla, en þessi umræðuhefð er að verða þjóðarböl.
Dugnaður Íslendinga, auðlindir landsins, saga þjóðarinnar og menning eiga hins vegar eftir að efla hag þjóðarinnar og auka virðingu hennar fyrir sjálfri sér og virðingu annarra fyrir þessari fámennu og dugmiklu þjóð og við eigum þá vini sem við þurfum.
Athugasemdir
Ef hingað kæmu breskir bankaræningjar og sælu hér fjármunum,getum við þá sent Bretum reikning fyrir tjóninu.? Og er það ekki okkar að að verjast slíkum mönnum.?
Ragnar Gunnlaugsson, 6.1.2010 kl. 17:57
Ég tek undir þetta. Þetta eru skuldir okkar. Við vildum njóta ávaxtanna af frelsinu og við verðum að taka því þegar okkar fólki mistókst að vera með nægilega sterka banka þegar kom að hruninu.
Ef greiðslurnar verða verulega íþyngjandi má ræða við viðsemjendur síðar.
Guðjón Sigurbjartsson, 6.1.2010 kl. 20:30
Þetta er góð grein. Mér sýnist hins vegar Guðjón Sigurbjartsson(@6.1.2010 kl. 20:30) misskilja fyrirsögn greinarinnar á þann veg að greinarhöfundur slái því föstu að skuldir Tryggingarsjóðs innlánseigenda séu "skuldir okkar" (þ.e. íslenska ríkisins eða íslenskra skattgreiðenda). Það gerir hann ekki að mínu viti heldur er inntak fyrirsagnarinnar: "Við greiðum þær skuldir sem eru sannarlega og réttilega okkar skuldir - við greiðum hins vegar ekki skuldir einkaaðila/óráðsmanna sem við berum enga ábyrgð á.
Það er í sjálfu sér skiljanlegt að Guðjón og fleiri standi í þeirri trú að skuldir Landsbankans við innlánseigendur Icesave séu sjálfkrafa á ábyrgð íslenska ríkisins miðað við málflutning ríkisstjórnar Íslands í málinu. Engu að síður hefur margsinnis verið á það bent með ítarlegum rökstuðningi að það er Tryggingasjóður innistæðueigenda en EKKI ríkissjóður Íslands sem ber skuldbindingu um lágmarksinnistæðustryggingu. Nýjustu dæmin sem ég man eftir í fljótu bragði eru grein Magnúsar Inga Erlingssonar í MBL, 29. des. 2009 og svo afdráttarlaus ummáli Evu Joly í fréttum RÚV í hádegi í dag - http://bit.ly/7IZwvD
Þótt ríkisstjórnir í sumum löndum hafi ákveðið að bjarga bönkum og innistæðueigendum með skattfé er hreint alls ekki nein lagaleg skylda eða skuldbinding á ríkjum að ábyrgjast þessar greiðslur. Þvert á móti kemur fram í tilskipun ESB um innistæðutryggingarsjóði að ríkisábyrgðir séu óheimilar þar sem slíkt skekki samkeppni milli banka og bjóði hættunni heim að ríki hygli sumum bönkum með slíkri fyrirgreiðslu.
Hvað varðar þann málatilbúnað að Íslendingum beri "siðferðileg skylda" að greiða fyrir Icesave má benda á rök hagfræðinga af austuríska skólanum (sjá www.mises.org) síðustu áratugina þar sem þeir hafa á mjög ítarlegan hátt talað fyrir því að hvers kyns "bailout" ýti undir áhættusækni (sbr. orðatiltækið "Greenspan put (option)"). Því má með góðum rökum halda því fram að það sé siðferðileg skylda okkar EKKI að bjarga bönkunum þar sem það viðheldur því kerfi og þeirri hegðun sem veldur reglulegu hruni (boom-bust).
Sveinn Tryggvason, 7.1.2010 kl. 18:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.