26.3.2010 | 21:15
Íslensk umræðuhefð
Í kvöld horfði ég á KASTLJÓS þar sem alþingiskonurnar Ólína Þorvarðardóttir og Vigdís Hauksdóttir áttu að ræðast við um stöðu ríkisstjórnar og þjóðmál undir stjórn Þórhalls frá Kópaskeri. Ekki bættu konurnar og linmælti maðurinn að norðan íslenska umræðuheft, heldur voru þau trú hanaati sem hófst með nautaati Hannesar Hólmsteins og Marðar Árnasonar í árdaga svokallaðra umræðuþátta í íslenskum fjölmiðlum og töluðu lengst af öll í einu. Hvenær læra íslenskir stjórnmálamenn að talast við - og hvenær tekst RÚV að efna til umræðuþátta sem skipta máli? Spyr sá sem ekki veit.
Athugasemdir
Þær Ólína og Vigdís eru alþingismenn. Orðið „alþingiskona" er öldungis óþarft.
Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 26.3.2010 kl. 22:04
Tek undir þetta með þér Tryggvi. Tilgangurinn virðist vera að fá klapp frá stuðningsmannaliði fyrir að ná nógu mörgum höggum á andstæðinginn. Ekki með rökum heldur með ,,ofbeldi" orðsins. Ætlaði Samfylkingin ekki að innleiða samræðustjórnmál? Var þetta sýnishorn af þeim?
Jón Baldur Lorange, 26.3.2010 kl. 22:41
Hvað er að því, Eiður, að tala um alþingiskonur?
Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 26.3.2010 kl. 23:50
Rétt eins og alþingiskonur þjáist af ófullnægðri vergirni.
Björn Emilsson, 27.3.2010 kl. 04:13
Sæll Tryggvi. Þetta er þörf umræða um þessa umræðuhefð (flott orð)sem er að skapast eða kannski réttar að segja er að verða allsráðandi í okkar samfélagi. Alveg er ég sammála þér að þetta er ekki nógu gott. Það þykir bara ekki nógu töff ef maður talar ekki án afláts eins og það sé tímasóun að hlusta á hinn aðilann. Þetta er, svei mér þá, hálfu verra þegar konur gera þetta. Ekki finnst mér skipta máli hvort menn segja alþingismenn eða alþingiskonur um viðkomandi meðan menn fara ekki að útskýra að konur séu líka menn. Ekki vissi ég að þessi afar geðþekki maður Þórhallur væri frá Kópaskeri sem mér finnst bara auka kostur. Við Norður-Þingeyingar vorum aldrei eins harðmælt og fólkið í Suður-sýslunni og höfðum ekki eins gaman af að tala
. kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 27.3.2010 kl. 08:17
sæll Tryggvi.
Þetta er hverju orði sannara hjá þér. Ég var að reyna að fylgjast með því, sem ég hélt að ætti að vera umræða, en komst svo að raun um að þar fóru tvær "garghænur" sem görguðu hver framan í aðra og haninn stóð álengdar og gólaði annað veifið, fremur tilkomulítið.
Haraldur A. Haraldsson (IP-tala skráð) 27.3.2010 kl. 10:52
Það er ekkert að því að tala um alþingiskonur fremur en söngkonur og skáldkonur. Það er allt í lagi að nota orð sem greina kyn, svona stundum a.m.k. Gömul málhefð þarf ekki alltaf að víkja fyrir einhvers konar jafnréttishugsun.
Sigurður Þór Guðjónsson, 27.3.2010 kl. 13:48
Samkvæmt íslenskri málvenju fornri eru konur menn.
Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 27.3.2010 kl. 15:04
Tek undir þetta innlegg. Það er sannarlega þörf að að lyfta umræðunni á það stig að hægt sé að rökræða ólíkar skoðanir. Það er skortur en jafnframt eftirspurn eftir slíkri umræðuhefð.
Gísli Gíslason, 27.3.2010 kl. 21:29
Svona simpilt svar dugar ekki á nýrri öld, Eiður, enda hefur mikið breyst síðan höfundur Njálu talaði um að Berþóra væri drengur góður. Enginn efast um að konur eru menn, og jafnvel þótt HKL láti Bjart í Sumarhúsum segja að kvenkynið sé nú einu sinni aumara en mannkyni getum við gamalreyndir menn ekki neitað konum um að kalla sig alþingiskonur - sem þær vilja. Sigurður Þór Guðjónsson bendir einnig á, að við tölum um söngkonur og skáldkonur og dæmin eru mýmörg. Því vil ég betra svar frá þér en að samkvæmt íslenskri málvernju fornri séu konur menn.
Tryggvi Gíslason, 27.3.2010 kl. 23:41
Þakka þér orðið, Kolbrún Stefánsdóttir. Um tveggja áratuga skeið hef ég talað og skrifað um "íslenska umræðuhefð" sem ásamt fámenninu stendur okkur Íslendingum helst fyrir þrifum. Þessi fátæklega umræðuhefð setur mark sitt á fjölmiðla sem ekki eru vanda sínum vaxnir: að flytja okkur sauðsvörtum almúganum hlutlægar fréttir af mönnum og málefnum - og gera þar greinarmun á.
tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 28.3.2010 kl. 01:02
The specially designed of <a href="http://www.mbtag.com/"><strong>mbt shoes</strong></a> significantly improves both your posture and your gait. The uniquely designed of <a href="http://www.mbtag.com/"><strong>MBT</strong></a>, combined with correct training, achieves a more active and healthy posture and walk. Wearing <a href="http://www.mbtag.com/"><strong>mbt shoes</strong></a> will burn extra calories, help to regenerate muscles. Cheap mbt shoes sale in MBTag.com.
mbt shoes (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 05:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.