5.4.2010 | 15:00
Íslensk menning - og "fjármálasnilld"
Styrmir Gunnarsson skrifaði um helgina grein í Sunnudags Moggann og fjallar um íslenska menningu og fjármál á Íslandi. Niðurstaða hans er sú, að þótt fjármálasnillin hafi reynst byggð á sandi, sé menningin byggð á traustri þúsund ára arfleifð.
Menningarlíf þjóðarinnar sé frjótt og menningarleg staða sterk. Fjölmennur hópur frábærra tónlistarmanna hafi sprottið upp úr starfi erlendra tónlistarmanna og sú kynslóð leikara, sem nú standi á sviði, hafi fengið afburða menntun. Ef til vill sé gróskan þó mest í myndlist, og þótt við höfum ekki eignast nýtt Nóbelskáld, eigum við fjölmennan hóp rithöfunda sem náð hafi til lesenda í öðrum löndum og fræðimenn okkar standi engum að baki í rannsóknum á sögu og menningu þjóða í heimshluta okkar. Síðan segir Styrmir:
"Nú eigum við að nýta menninguna til að endureisa sjálfstraust okkar, byggja sjálfsmynd okkar upp á nýtt og endurheimta virðingu annarra þjóða. Við eigum að hefja markvissan og skipulegan útflutning á menningu okkar með ýmsum hætti og í ýmsum myndum. Það kostar einhverja peninga og þótt við höfum ekki ráð á miklu höfum við ráð á einhverju. Og þeir eiga að koma úr almannasjóðum."
Gamli ritstjóri Morgunblaðsins skrifar orðið eins og gamall skólameistari að norðan, sbr. grein mína hér að neðan frá 28. f.m., þar sem lögð er áhersla á menningu þjóðar sem sameningartákn, en menning byggist á landi, tungu og sögu þjóðar - en hluti af sögu þjóðar er menning hennar.
Það eina sem ég vil gera athugasemd við í skrifum hins merka ritstjóra Morgunblaðsins - meðan Morgunblaðið var og hét - er hugmyndin um skipulegan útflutning menningarinnar. Hugmyndin ber keim af fjármálasnilli útrásarvíkinga, en sú "snilli" var heimska, græðgi og þekkingarleysi í þessari röð.
Aftur á móti er sjálfsagt að stuðla að kynningu íslenskrar menningar erlendis á markvissan og skipulegan hátt og leggja til fé úr sameiginlegum sjóðum, eins og við sósíalistar höfum lengi viljað.
En svo þurfum við að berjast fyrir því að efla frelsi, jafnrétti og bræðralag - og ekki síst endurreisa virðingu stjórnmálamanna, sem eru allt að því eins nauðsynlegir einni þjóð og listamenn. Við getum endurreist virðingu ágætra stjórnmálamanna með því að efna til stjórnlagaþings, sem þjóðin kýs í almennum, persónubundnum kosningum með landið allt sem eitt kjördæmi.
Athugasemdir
Sú menning sem þarfnast auglýsinga og áróðurs hefur ekki mikilúðlegt yfirbragð.
Það eina sem til gagns auglýsir íslenska menningu er yfirbragð þjóðarinnar og sú skynjun sem ferðamaðurinn fær í námunda við fólkið í landinu og samneyti þess við land sitt og sögu.
Árni Gunnarsson, 6.4.2010 kl. 14:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.