15.4.2010 | 11:14
Endurreisn Íslands
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er góð. Umræður á Alþingi lofa ekki góðu. Sumir þingmenn hafa lítið að segja, benda hver á annan, kenna öðrum um, ræða ávirðingar annarra, drepa málinu á dreif - og virðast lítið hafa lært.
Fyrir Alþingi liggja 600 - sex hundruð - mál sem seint verða afgreidd. Meðal þessara mála er frumvarp til laga um ráðgefandi stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána. Kjósa átti til þingsins í vor samhliða kosningum til sveitarstjórna. Það verður ekki.
Stjórnlagaþingið átti að fjalla um undirstöður stjórnskipunar og hugtök og valdmörk löggjafarvalds og framkvæmdavalds, hlutverk forseta, sjálfstæði dómstóla, kosningar og kjördæmaskipan og þátttöku almennings í lýðræðislegri stjórn landsins.
Í ljósi þess sem gerst hefur og í ljósi sundurlyndis alþingismanna og getuleysis er rétt að kjósa stjórnlagaþing óháð Alþingi og kjósa fulltrúa persónulegri kosningu með landið sem eitt kjördæmi. Slíkt stjórnlagaþing almennings er fyrsta skrefið í endurreisn Íslands og lýðræðislegu skipulagi.
Athugasemdir
"Stjórnlagaþing almennings er er fyrsta skrefið í endurreisn Íslands og lýðæðislegu skipulagi"
Segðu okkur meira.
Agla, 15.4.2010 kl. 19:38
Kæra, Agla! Hver ert þú - og hvað viltu heyra um stjórnlagaþing almennings?
Tryggvi Gíslason
Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 15.4.2010 kl. 20:41
Ekki var heldur hægt að setja á dagskrá vorþings sökum anna, mál er varða barnavernd.
sandkassi (IP-tala skráð) 15.4.2010 kl. 23:15
Er þetta tvennt sambærilegt, Gunnar?
Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 00:18
við getum spurt okkur af hverju dagskrá þingsins er sett upp á þann hátt að 3 heilir dagar hafa nú farið í að ræða skýrslu sem engin í þinginu hefur lesið nema að litlum hluta.
Umræðurnar fjalla því engan vegin efnislega um skýrsluna. Sambærilegt?
Mér þykir full ástæða til þess að gagnrýna dagskrá þingsins og skipulag.
sandkassi (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 00:27
Það segir þú satt, Gunnar. Starfsháttum Alþingis er stórlega ábóta vant auk þess sem sýndarmennskan ræður ríkjum.
Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 00:30
já er það ekki, þetta virkar svona eins og leikhús fáránleikans. Spurning hvort að alþingi sé ekki vanhæft til að fjalla um skýrsluna á þessu stigi?
sandkassi (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 00:34
Vel upp alið fólk fremur ekki stórkostlega glæpi. Nýtt Ísland verður ekki byggt á þeim rústum sem við stöndum á núna. Ef árangur á að nást þarf að ýta því til hliðar sem skaðar okkur en hafa það í hávegum sem gerir okkur gott. Endurreisnina verður að byggja frá grunni því að gömlu hundunum verður ekki kennt að sitja nú fremur en endranær. Þetta mun taka 50 til 60 ár en því fyrr sem við byrjum því betra.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 16.4.2010 kl. 09:23
Það er rétt, Benedikt Jóhannes, að "vel upp alið fólk fremur ekki stórkostlega glæpi" - og virðir grundvallarreglur kristinnar siðfræði: þú skal ekki morð fremja, þú skal ekki stela og þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Það er líka rétt að "endurreisnina verður að byggja frá gunni" - en það þarf ekki að taka 50 til 60 ár. Ef almenningur tekur höndum saman og heimilin og skólinn - tvær grundvallastofnanir ríkisins - fá tækifæri til þess að taka þátt getur þetta gerst á fáum árum. En "starfsreglur stjórnmálanna", grundvallarlögin - stjórnarskrána - á almenningur að setja, þ.e.a.s. stjórnlagaþing eins og ég nefni hér að ofan.
Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 13:26
Ég myndi segja að eðlileg siðfræði felist í því að setja eðlilegar reglur fyrir Íslenskan fjármálamarkað. Þetta hefur brugðist. Það er ekki nokkur leið að treysta á náungakærleika í þessu efni.
sandkassi (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 14:26
Ég er ekki að tala um náungakærleika, Gunnar, enda þótt hann sé AFAR mikilvægur í þessari umræðu, þ.e.a.s. ef mönnum er einhver alvara og ekki er um að ræða pólitískar eða "pólimískar" æfingar. Það sem ég er að tala um er þetta þrennt: ekki myrða, ekki stela, ekki ljúga. Þá erum við laus við stríð, laus við pappírspeninga - og helvítis auðvaldið - og getum treyst á heiðarleika í samskiptum. BASTA!
tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 23:07
Nei það gengur ekki upp, Þú myndir ekki kaupa þér bíl og treysta því að seljandinn myndi ekki bara taka hann af þér aftur.
Nei þú ferð fram á afsal og kaupsamning og kvittun. Þar með er traust ekkert atriði í framhaldi.
Þú spyrð ekki heldur seljandann um ástand bílsins, nei þú ferð með bílinn í ástandsskoðun og tekur ábyrgð á málinu sjálfur.
Boðorðin 10 koma þessu ekkert við. Náungakærleikur er ekkert til umræðu heldur stjórnsýsluhættir og eftirlit með umfangsmikilli fjármálastarfssemi.
sandkassi (IP-tala skráð) 17.4.2010 kl. 10:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.