Nauðsyn á nýjum umræðumiðli

Þegar lífið var einfalt og BONUS og Kaupþing ekki komin til sögu, var unnt að fylgjast með þjóðmálum og stjórnmálum með því að lesa litla Alþýðublaðið, Dag á Akureyri, "blað allra landsmanna" Morgunblaðið, Tímann, blað framsóknar- og samvinnumanna, og Þjóðviljann, sem flutti ögrandi skoðanir utan úr heimi. Ef auk þess var hlustað á fréttir og fréttaauka FRÉTTASTOFU RÍKISÚTVARPSINS undir frábærri stjórn Jóns Magnússonar og Margrétar Indriðadóttur, vissu menn viti sínu.

Nú, þegar við höfum fengið að kynnast svikum heimskra óknyttastráka í viðskiptalífinu, Alþýðublaðið, Dagur, Tíminn og Þjóðviljinn eru fyrir bí og Morgunblaðið er eins og afturganga frá liðinni öld spillingar innvígðra, innmúraðra flokksbræðra foringjans og upp risinn óskapnaður hagsmunaaðila í viðskiptum, sem heitir Fréttablaðið, og óþverrablaðið DV er enn á sömu skítaskónum og fyrr, þótt settur hafi verið upp leðurhattur Crocodile Harry, hvar er upplýsinga að leita, hvar fáum við hlutlægar fréttir af því sem máli skiptir og hvernig getum við fylgst með umræðunni á þessum örlagatímum? 

Ekki er að unnt treysta súrum og hlutdrægum áróðursmeisturum gamla tímans eins og Birni Bjarnasyni og Jónasi Kristjánssyni, því síður hlutdrægum fjölmiðlagosum eins og Agli Helgasyni og Hallgrími Thorsteinssyni, að ekki sé talað um Eyjuna og Þjóðviljann, þótt ólíku sé saman að jafna, svo ég nefni ekki óþverra fasbækur og blogg skillítilla manna, karla og kvenna, sem ekki láta nafn síns getið en ausa úr skálum vanmetakenndar sinnar.

Til þess að treysta umræðuna þarf að stofna nýjan netmiðil, umræðuvettvang fyrir fólk sem vill taka þátt í heiðarlegri umræðu um þjóðmál og stjórnmál undir fullu nafni. Þá þarf ekki að leita um allt netið, heldur vitum við hvar unnt er að ganga að skoðanaskiptum hreinskiptins fólks - og auglýsingar úr öllum áttum borga brúsann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband