6.6.2010 | 10:39
Beint lýðræði og ný stjórnarskrá
Skammt er öfganna í milli. Nú talar Styrmir Gunnarsson um beint lýðræði þar sem ákveða skal öll meginmál með þjóðaratkvæðagreiðslu. Öðruvísi mér áður brá.
Kenningin um beint lýðræði tekur út yfir allan þjófabálk og spádómar hans og annarra um að flokkakerfið á Íslandi hafi runnið sitt skeið á enda, er enn eitt dæmið um öfgar í íslenskri stjórnmálaumræðu þar sem heimurinn er annaðhvort svartur eða hvítur og pendúlinn sveiflast frá því lengst til hægri til lengst til vinstri.
Beint lýðræði, þar sem allir eiga að setja sig inn í öll mál, þekkja allt, skila allt og vita allt, er óhugsandi af þekkingarfræðilegum ástæðum, af því að enginn getur þekkt allt, skilið allt og vitað allt, heldur verðum við að treysta kjörnum fulltrúum til þess að ráða fram úr málunum. Þetta er eðlileg verkaskipting í þjóðfélagi sérfræðinnar, þjóðfélagi þekkingarinnar. Auk þess er beint lýðræði þunglamalegt og kostnaðarsamt. Í þriðja lagi og það sem ekki skiptir minnstu máli: í beinu lýðræði ber enginn ábyrgð, en ábyrgð er það sem skiptir máli.
Því skiptir öllu máli, að fólk - ungt fólk, gamalt fólk, konur og karlar, beri ábyrgð á gerðum sínum og sé gert kleift og krafið um að bera ábyrgð á sér sjálft: í skólum, á heimilum og vinnustöðum, í umferðinni, í samskiptum sínum við annað fólk - og í stjórnmálum.
Til þess þurfum við m.a. ábyrga stjórnmálaflokka og virkt fulltrúalýðræði, opna umræðu og algera upplýsingaskyldu.Stjórnmálaflokkar eiga sjálfir að ráða, hverja þeir bjóða fram og ekki notast við prófkjör sem er blekking, upphaflega fundin upp til þess að slá ryki í augun á fólki og láta það halda að það réði einhverju sjálft, en endaði með því að hlaupandi strákar úr íþróttafélögum eða öðrum stjórnmálaflokkum réð framboðslistum.
Stjórnmálaflokkar eiga að kynna stefnumál sín og viðhorf með einföldum og skiljanlegum hætti og fjölmiðlar - ekki síst Ríkisútvarpið, eiga að veita flokkum og frambjóðendum aðhald á grundvelli þekkingar á lögmálum samfélagsins það þarf sem sagt menntaða blaðamenn.
Hins vegar á að nota beint lýðræði við að setja landinu grundvallarlög stjórnarskrá, þar sem kjörið er til stjórnlagaþings beinni persónukosningu með landið allt sem eitt kjördæmi. Styrmir Gunnarsson, Björn Bjarnason, Bjarni Benediktsson og Jóhanna mega hins vegar ekki heyra minnst á "stjórnlagaþing þjóðarinnar" um leið og talað er um beint lýðræði, jafnrétti og bræðralag. Hér er eitthvað sem ekki passar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.