24.7.2010 | 12:00
Beint lýðræði - ný stjórnarskrá
Eftir alræði stjórnmálaflokka heila öld tala menn um beint lýðræði þar sem ákveða skuli meginmál með þjóðaratkvæðagreiðslu. Jafnframt er talað um að fjórflokkurinn sé dauður og flokkakerfið hafi runnið sitt skeið á enda.
Þetta er enn eitt dæmi um öfgar í stjórnmálaumræðu á Íslandi. Beint lýðræði krefst þess að kjósendur setji sig inn í öll mál, þekki allt, skilji allt og viti allt. Slíkt er óhugsandi af þekkingarfræðilegum ástæðum. Enginn getur þekkt allt heldur verða kjósendur að treysta kjörnum fulltrúum til þess að ráða fram úr málum samfélagsins. Í slíku felst eðlileg verkaskipting í þjóðfélagi sérfræði og sérþekkingar. Auk þess ber enginn ábyrgð í beinu lýðræði, en ábyrgð skiptir máli, ekki síst í stjórnmálum.
Til þess að auka ábyrgð þarf ábyrga stjórnmálaflokka sem ákveða - og bera ábyrgð á frambjóðendum, en skýla sér ekki á bak við prófkjör sem fundin voru upp til þess að láta kjósendur halda að þeir beri ábyrgð á frambjóðendum, prófkjör sem lauk með fjármálaspillingu þar sem hlaupandi strákar úr íþróttafélögum eða öðrum stjórnmálaflokkum réðu framboðslistum.
Stjórnmálaflokkar eiga að kynna stefnu sína og viðhorf á skýran og skiljanlegan hátt og fjölmiðlar eiga að veita flokkum og frambjóðendum aðhald á grundvelli þekkingar á lögmálum samfélagsins.
Hins vegar hefði átt að nota beint lýðræði til þess að setja landinu nýja stjórnarskrá, þar sem kjörið væri til sjálfstæðs stjórnlagaþings með landið allt sem eitt kjördæmi. En það fór sem fór. Alþingismenn treystu almenningi ekki til þess að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá, enda er svo komið að almenningur treystir heldur ekki Alþingi og þá er líkt á komið með öllum.
En ný stjórnarskrá á að tryggja réttindi almennings, en ekki vald Alþingis, tryggja órkoraða virðingu fyrir hverjum manni - eða eins og segir í fyrstu grein stjórnarskrár Þýskalands: Die Würde des Menschen ist uantastbar virðing mannsins er ósnertanleg. Það er megurinn málsins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.