21.7.2010 | 14:07
Stjórmálaógæfu Íslands verður allt að gagni
Enn einu sinni er almenningi sagt ósatt. Enn einu sinni eru íslenskir stjórnmálamenn ósammála um grundvallaratriði. Enn einu sinni geta fjölmiðlar landsins ekki greitt úr vandanum og skilið hismið frá kjarnanum. Enn einu sinni sitjum við eftir með aulasvip, óbragð í munni og sárt enni.
Útlendingar mega ekki samkvæmt lögum eignast auðlindir landsins. Útlendingar eiga heldur ekki að eignast auðlindir landsins eða ráðstöfunarrétt á þeim af því að þær eru lífsbjörg okkar. Þær eru því og eiga að vera í eigu þjóðarinnar. Svo einfalt er það.
Engu að síður lætur ríkisstjórn fólksins viðgangast að erlent fyrirtæki, kanadískt fyrirtæki, sem samkvæmt regluverki Evrópska efnahagssvæðisins má heldur ekki fjárfesta á Íslandi, stofnar skúffufyrirtæki í Svíþjóð til þess að fara á svig við lög landsins og reglur Evrópska efnahagssvæðisins.
Þorsteinn Pálsson, sem stundum hefur virst hafa tilburði til þess að reyna að segja satt, gengur í lið með blekkingunni. Í Fréttablaðinu 17. þ.m. segir hann að í umræðunni um kaup á Magma á HS orku sé "stöðugt ruglað saman fjárfestingu í orkuframleiðslu og orkulindum". Þessi orð minna á bellibrögð kaþólskra manna á föstunni þegar þeir kölluðu kjöt vatnakarfa og átu af bestu lyst og án nokkurs samviskubits.
Hvað má til varnar verða vorum sóma? Er enginn endir á svikum og blekkingum íslenskra stjórnmálamanna og fjölmiðla? Verður stjórnmálaógæfu Íslands enn allt að gagni? Kunna menn enn ekki að skammast sín eftir öll svikin sem á undan eru gengin?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.