Einsýni, dómgirni og öfgar

Undarlegt var að lesa "skoðun" Óla Kristjáns Ármannssonar í Fréttablaðinu föstudag 25ta júlí. Er erfitt að átta sig á, hvað vakir fyrir mönnum að skrifa slíka grein og hvaða tilgangi slík grein á að þjóna? Hún bætir a.m.k. ekki umræðu um viðkvæmt og flókið deilumál þar sem einsýni, dómgirni og öfgar blasa alls staðar við.

Greinin hefst með gildishlöðnum yfirlýsingum um að “þjóðremba” og “oftrú á ágæti þess sem sprottið er upp í nærumhverfinu” sé með “leiðinlegri kenndum” og slíkur “rembingur” sé oftast talinn birtingarmynd ákveðinnar “minnimáttarkenndar” og skiljanlegt að hann “leggist fremur á smærri þjóðir”.

Síðar er talað um að "í þjóðrembingi sé kominn sá falski tónn” sem höfundur þykist merkja í “háværri baráttu” sem fram fer gegn fjárfestingu Magma Energy í íslenskum orkuiðnaði.

Upphaf greinarinnar lofar því ekki góðu og framhaldið er eftir því. Sagt er að einhverjum kunni að þykja “þægilegra” að “bölsótast” yfir kaupum Magma Energy fremur en horfast í augu við “ónýtan gjaldmiðil” og “viðvarandi gjaldeyrishöft, atvinnuleysi, fjármálafyrirtæki á brauðfótum, óleysta Icesave-deilu”.

Greininni lýkur með langri röð af gildishlöðnum yfirlýsingum og dómgirni þar sem segir að ósvarað sé spurningunni hvernig “hollvinir krónunnar” og “andstæðingar aukins Evrópusamstarfs” ætla að tryggja stöðuleika gjaldmiðils og “byggja upp þann trúverðugleika sem þarf til þess að í landinu verði lífskjör viðunandi. Vera má að það sé hluti einangrunarstefnunnar að berja frá landinu erlenda fjárfestingu. En þá þarf líka að segja það svo fólk átti sig að hverju er stefnt, fremur en að snúa umræðunni upp í einhverja öfugsnúna þjóðernishyggju þegar kemur að fjárfestingum og fyrirtækjarekstri.”

Við hvað ætli Óli Kristján Ármannsson eigi svo með orðunum “þjóðremba”, “þjóðrembingur” og “öfugsnúin þjóðernishyggja”. Er það að vilja koma í veg fyrir samninga sem eru lagalega vafasamir og óhagstæðir frá viðskiptasjónarmiði og geta bundið afnot af mikilverðri auðlind þjóðarinnar og orkunýtingu í 130 ár. Og það sem meira er: Samningurinn færir ekki eina einustu krónu inn í landið heldur er gamla aðferðin notuð að taka fé að láni innanlands með veði í nýtingunni auðlindarinnar. Þetta er bara "2007".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband