Sviksemi, siðleysi og glæpir

Sviksemi í viðskiptum, óheilindi í stjórnmálum og mannlegum samskiptum, rógur og illt umtal nafnlauss undirmálsfólks í opnum netfjölmiðlum eru sorgleg dæmi um siðleysi og jafnvel glæpsamlegt athæfi.

Þegar biskup íslensku þjóðkirkjunnar er barnaníðingur og ofbeldismaður gegn konum, er hins vegar fokið í flest skjól. Ég stend höggdofa, lamaður og yfirkominn af sorg. Vondir eru samfélagsglæpir viðskiptaþjófa, svikulla stjórnmálamanna og rógbera, en glæpir gegn varnarlausum einstaklingum eru þúsund sinnum verri. Ef núverandi biskup og hollir ráðgjafar hans geta ekki fundið leið út úr þessum skelfingum, er rétt að skilja að ríki og kirkju, leggja þjóðkirkjuna niður.

Næst á eftir fjölskyldunni er skólinn mikilsverðasta stofnun samfélagsins, fremri Alþingi og dómstólum. Kirkjan kæmi svo þarna einhvers staðar á eftir, ef hún væri stofnun sem almenningur treystir. En eftir síðustu atburði treystir almenningur ekki kirkjunni og þjónum hennar.

Til þess að skilja rétt frá röngu og gott frá illu þarf skólinn að styðja við heimilin og kenna okkur að virða mannréttindi: frelsi, jafnrétti og bræðralag. Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá bjarga engu. Nýtt Ísland verður ekki til nema skilningur á grundvallaratriðum lýðræðislegrar siðfræði sé fyrir hendi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hverju orði sannara þótt skelfilegt sé.

Svavar Alfreð Jónsson, 23.8.2010 kl. 14:18

2 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Ég hef orðið þess var undanfarna daga að fjöldi venjulegs kristins fólks íhugar að segja sig úr þjóðkirkjunni.  Ég hef reynt að spyrja hvað það er nákvæmlega sem fólk sættir sig ekki við og þá er svarið að bæði þessi frétt um brot okkar gamla biskups og aðkoma núverandi biskups séu óviðunandi. Þjóðin unir ekki setu í slíkri stofnun, ef kirkjan sýnir ekki í verki að hún líður ekki svona ofbeldi og hún á að standa fortakslaust með brotaþolum.

Nú er alveg rétt að ræða aðskilnað ríkis og kirkju, og kunna að hníga að því mikil rök. Ef þjóðkirkjan tekur ekki á þessum málum mun þjóðin sjá sjálf um málið og segja sig úr þjóðkirkjunni.

Ég hef áhyggjur af þesi öldu úrsagna úr þjóðkirkjunni sem gæti risið hátt vegna þeirrar samfélagsþjónustu sem kirkjan rækir í samfélagi okkar.

Við úrsögn okkar fær kirkjan minni tekjur og það munar um minna í fámennum samfélögum. Kirkjan á staðnum er eftir sem áður opin viðkomandi til að skíra, ferma börn, fylgja aðstandendum til grafar og svo framvegis. Hún hefur bara minni tekjur til að sjá um rekstur, æskulýðsstarf og svo framvegis.

Þess vegna vil ég hvetja til umræðu um málefni kirkjunnar okkar, hún hefur mikilsverðu hlutverki að gegna í þágu samfélagsins.

Það þarf að endurreisa traust á þjónum kirkjunnar. Kirkjan hefur beðið álitshnekki, en ég held að fók treysti afar vel langflestum prestum landsins, sem betur fer.

Jón Halldór Guðmundsson, 24.8.2010 kl. 08:56

3 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Þessum orðum þínum er ég sammála, Halldór. Þjóðkirkjan er önnur elsta stofnun landsins, næst á eftir Alþingi. Báðar eiga nú undir högg að sækja, sem er engin tilviljun. En það verður að "endurreisa" þær. Þjóðin getur ekki án þeirra verið.

Fyrsta skrefið í endurreisninni er málefnaleg umræða, því orð er til alls fyrst. En á sama hátt og skólar standa og falla með starfsmönnum sínum stendur Þjóðkirkjan og fellur með starfsmönnum sínum - eins og Alþingi. Því verða starfsmenn Þjóðkirkjunnar - og Alþingis að taka þátt í opinberri, heiðarlegri og opinskárri umræðu um vandamál og viðfangsefni stofnananna beggja.

Tryggvi Gíslason, 24.8.2010 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband