3.9.2010 | 10:03
Ónýt stjórnarandstaða - ónýtt Alþingi
Alþingi kom saman í gær eftir sumarleyfi. Almenningur lifir enn í óvissu um atvinnu og afkomu. Landsframleiðsla dregst saman. Arionbanki dreifir skít yfir þjóðina með því að gefa ósnertanlegum svikurum upp skuldir. Kvótakóngar segja eitt hér og annað þar.
Svo stendur hin þríeina stjórnarandstaða á Alþingi upp og tuðar um tittlingaskít. Nú er kominn tími til þess að Alþingi, ríkisstjórn og stjórnarandstaða taki höndum saman, gleymi fyrri væringum og takist sameiginlega á við vandann sem við er að stríða. Af nógu er að taka.
Athugasemdir
Þetta er allt satt og rétt. Ráðaleysið er ,,alls-ráðandi".
Guðmundur St Ragnarsson, 3.9.2010 kl. 15:38
Sammála.
Jón Baldur Lorange, 3.9.2010 kl. 16:49
Og hér kemur þriðja atkvæðið.
Árni Gunnarsson, 3.9.2010 kl. 20:01
Tryggvi, þú ert einn af þeim mönnum sem ég hef fylgst með á minni löngu ævi, allar götur frá því þú varst fréttamaður á góðu gömlu gufunni og alltaf haft dágott álit á þér.
Að ofan kemur þú inn á eitt mikilvægasta hlutverk þeirra sem hafa verið kjörnir til trúnaðarstarfa á Alþingi. Ég veit, og það vitum við öll, að Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir tók við skelfilegasta búi sem nokkur Ríkisstjórn Íslands hefur fengið til úrlausnar. Þessi Ríkisstjórn hefur unnið þrekvirki en eflaust orðið oft á og ekki ráðið við öll verkefnin. Ég ber ómælda virðingu fyrir þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, það eru þau tvö sem með órofa samstöðu eru að draga okkur upp úr feni hrunsins. Mér finnst grátlegt að heyra og sjá stjórnarandstöðuna á þingi, þar er engin jákvæð rödd til, aðeins gamaldagsnöldur eins og best þótti á Hriflutímanum. Þó ég taki þannig til orða er ég þar engan veginn að vega að einum framsæknasta stjórnmálamanni Íslands fyrr og síðar, Jónasi frá Hriflu.
En stjórnarandstaðan á Alþingi er sífrandi hjörð vælukjóa sem halda að það eitt sé pólitík minnihlutans að vera sífellt á móti. Þeir eru vissulega samtaka þar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins og Þór Saari talsmaður Hreyfingarinnar sem öllu ætlaði að breyta, allt ætlaði að bæta.
Af hverju hefur Framsóknarflokkurinn ekki bætt við sig nokkru fylgi í skoðanakönnunum?
Af því að maðurinn sem áttu mesta möguleika í íslenskri pólitík til að hefja sig yfir dægurþrasið og gefa íslenskri pólitík nýjan tón, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sökk á kaf í þraspyttinn og lítilmennskuna, hann eyðilagði gjörsamlega möguleika Framsóknarflokksins til að verða endurnýjað afl í íslenskri pólitík og byggja aftur á samvinnuhugsjóninni sem á tvímælalaust að endurreisa á Íslandi. En arftaki Jónasar, Hermanns, Eysteins og Steingríms kaus í þess stað að verða frosinn þrasbelgur sem hefur ekki bætt neinu við fylgi þess flokks sem kaus hann sinn foringja.
Sjálfstæðisflokkurinn er á algjöru valdi manns sem var eitt sinn glæstur foringi, Davíð Oddsson. Veikindi hans eru staðreynd, hann skilur ekki sinn vitjunartíma og þeir sem gerðu hann að ritstjóra Morgunblaðsins eru óhappamenn Íslands. Landfundur Sjálfstæðisflokksins sat skellihlæjandi undir ömurlegri ræðu Davíðs Oddssonar þegar bæði fyrrum fylgismenn hans og andstæðingar fylgdust með og hugsuðu það sama; hann átti skilið betra en að gera sjálfan sig að trúði
Og þessi sami landsfundur kaus aftur drenginn úr Garðabæ með silfurskeiðina í munninum sem formann sinn, drenginn sem í dag þorir ekki að kvaka eitt orð nema fá til þess leyfi frá Hádegismóum. Þetta er flokkurinn sem hafði ekki vit á því að kjósa sem foringja sinn þrautreyndan mann til sjós og lands, Kristján Þór Júlíusson fyrrum bæjarstóra og sjómann. Mann með þá reynslu sem er mikilvæg fyrir þann sem tekur að sér forystuhlutverk í íslenskri pólitík.
Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum á það fámenna lið sem telur sig til Hreyfingarinnar, Þetta ruglulið sem ætlaði öllu að bjarga en eru í dag ekkert annað en innantómir þrasbelgir sem koma ekki fram með eitt einasta jákvætt kvak.
En hvers vegna er ég að harma það að flokkar, sem ég fylgi ekki, hafa verið svo seinheppnir í að velja sér lélega forystu? Ætti ég ekki að vera ánægður með það að dusilmenni séu í forystu í mínum andstöðuflokkum?
Nei, svo langt frá því. Við þurfum öll á því að halda að hinir víðsýnustu og hæfustu séu í forystu í öllu þeim öflum og flokkum sem fulltrúa eiga á Alþingi. Það er höfuðnauðsyn til að við getum myndað öfluga Ríkisstjórn til að takast á við þau vandamál sem þjóðin glímir við.
Hinsvegar er ég nú svo gamall sem á grönum má sjá; mér finnst vandamál íslensku þjóðarinnar i dag ekki vera nema stormur í vatnsglasi miðað við hvaða erfiðleika var við glíma fyrr á árum.
Tryggvi, þetta átti aðeins að vera stutt athugasemd en orðið nokkuð lengri en ég ætlaði. Taktu það ekki illa upp þó ég afriti hana og lími inn í eigið blogg.
Sigurður Grétar Guðmundsson, 4.9.2010 kl. 01:11
Þakka þér þessi orð, Sigurður Grétar. Þú hefur mikla yfirsýn yfir íslenska stjórnmálasögu og flestu sem þú segir er ég sammála. Sannarlega eru vandamál þjóðarinnar nú önnur en fyrrum. Hins vegar voru aðstæður þá aðrar, viðhorf önnur og við áttum fárra kosta völ. Þá voru það erfiðleikar vegna náttúruhamfara, bjargarskorts og þekkingarleysis sem urðu okkur þyngst í skauti. Þá voru Íslendingar fátækasta þjóð í Evrópu. Nú skortir okkur ekkert og möguleikar eru miklir. Nú er um að ræða "móðuharðindi af manna völdum" þar sem ágirnd og mannfyrirlitning ráða ríkjum. Það sem gremst mér þó mest er sundurlyndi ráðamanna sem hafa gleymt kjörorði Ólafs Thors, þess merka forystumanns Sjálfstæðisflokksins: "Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér". Nú getur ekkert bjargað íslenskri þjóð annað en samvinna: að standa saman - annars föllum vér!
Tryggvi Gíslason, 4.9.2010 kl. 10:31
Það er rétt Sigurður að ríkisstjórnin tók við rústuðu búi.
Hins vegar hefur hún sameinast um það sem sundrar þjóðina heldur en hitt. Það er ófyrirgefanlegt og þess vegna er þetta ógæfu ríkisstjórn. Verkin sýna merkin.
Hún hefur þannig snúið út úr orðum Ólafs Thors og þau hlóða nú svo í hennar ranni: Sameinaðir stöndum vér vinstri menn, sundraðir föllum vér í hendur á sjálfstæðismönnum.
Þetta er það sem heldur lífi í þessari ríkisstjórn því miður. Þar er ekki gætt að þjóðarhag - þar er gætt að hag hreinu vinstri stjórnarinnar fyrst og síðast.
Jón Baldur Lorange, 4.9.2010 kl. 13:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.