Áskorun til alþingismanna

Íslensk þjóð hefur oft gengið í gegnum erfiðleika og sigrast á þeim. Það mun hún einnig gera nú með dugnaði og samstöðu á grundvelli sameiginlegra verðmæta, aukinnar menntunar og náttúruauðlinda.

Það sem skiptir máli, er að allir taki höndum saman: stjórnmálamenn, launþegasamtök og samtök atvinnulífsins, embættismenn, fulltrúar almennings og fjölmiðlar - og horfi fram á veginn.

Undanfari endurreisnar efnahagslífs er pólitísk endurreisn, bætt siðferði í stjórnmálum, aukinn heiðarleiki í viðskiptum og fjármálum og þroskuð umræðuhefð, mannvirðing og jafnrétti á öllum sviðum.

Þegar við höfum fast land undir fótum, heimilum landsins hefur verið bjargað úr skuldafeni, óttinn er horfinn og dómgirni hefur vikið fyrir yfirvegaðri umræðu, reynum við að átta okkur á því hvað gerðist.

En fyrsta skrefið er samvinna alþingismanna og myndun þjóðstjórnar.

Alþingismenn allra flokka sameinist!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ertu sem sagt að hafna þessu með Landsdóm? En hvað með þá sem valda skaða svona almment en eru ekki ráðmenn? Hvað með smákrima? Eigum við ekki bara að horfa fram á við og gefa þeim annað tækifæri án þess að þeir þurfi að standa ábyrgir gerða sinna?

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.9.2010 kl. 18:08

2 Smámynd: Gústaf Níelsson

Ég get heilshugar tekið undir með þér Tryggvi. Vandinn er bara sá að nú er stund hinnar pólitísku hefndar runninn upp og enginn hefur áhyggjur af skuldsettum heimilum, nema þeir skuldsettu. Og hvorki ríkisstjórnin né verkslýðshreyfingin virðist láta sig nokkru varða þótt 15.000 manns séu án atvinnu.

Gústaf Níelsson, 10.9.2010 kl. 18:09

3 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Nei, Sigurður Þór. Með þessu er ég ekki að hafna því, að afbrotamenn verði sóttir til saka og dæmdir. Síður en svo og þvert á móti. Hins vegar er ég að óska eftir því, að dómgirni, slúður og dómstóll götunnar verði ekki alls ráðandi í þessari umræðu.

Hvað þú, Gústaf, átt við með "pólitískri hefnd", veit ég ekki, en ef þú átt við bræðra- og hjaðningavíg stjórnmálamanna, sem við horfum upp á dag hvern á Alþingi, ber að hætta þeim vígum þegar í stað, snúa bökum saman og finna leið út úr ógöngunum, ekki síst ógöngum sem saklaust fjölskyldufólk hefur verið sett í, heimilin sem eru hornsteinn samfélagsins.

Tryggvi Gíslason, 10.9.2010 kl. 18:32

4 Smámynd: Gústaf Níelsson

"Pólitísk hefnd" er auðvitað af öðrum toga en venjuleg "bræðra- og hjaðningavíg stjórnmálamanna", Tryggvi, sem við verðum vitni að daglega. Ég geri ráð fyrir því að augu þín munu uppljúkast á allra næstu dögum, þegar þjóðinni verða kynnt áform ríkisstjórnarflokkanna á þingi að kalla saman landsdóm til að koma réttlætinu til skila. Ég óttast að þá fyrst verði fjandinn laus, en vona að hefndarhugur brái af mönnum.

Oftast kemur fólks sér þó hjálparlaust í ógöngur, Tryggvi, en þær eru samt ekkert skárri fyrir það. Og ekki er nýskipaður umboðsmaður skuldara að leggja gott til málanna, fremur en ríkisstjórnin blessuð, eða hefur mér yfirsést eitthvað?

Gústaf Níelsson, 10.9.2010 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband