Hvað þarf að gerast til þess augu alþingismanna opnist?

Hvað þarf að gerast til þess augu alþingismanna opnist og þeir taki höndum saman og leysi vanda þjóðarinnar? Þurfa 200 læknar að flytjast burtu af landinu? Þarf að bjóða upp 2000 íbúðir á einum mánuði? Þurfa 200 þúsund manns að koma saman í miðborg Reykjavíkur að augu alþingismanna opnist?

Hvers vegna er ekki lagður skattur á inngreiðslur í lífseyrissjóði, skattur sem færir ríkissjóði milljarðatugi á ári meðan þörfin er mest. Í stað þess eru fjárveitingar til skóla og sjúkrastofnana skornar niður og atvinnuleysi og vanlíðan aukin?

Hvers vegna eru vextir ekki lækkaðir til þess að koma atvinnulífinu af stað? Hvers vegna er ekki ráðist í að fullvinna heima allan fiskaflann? Hvers vegna er ekki þegar í stað ráðist í að nýta alla gufu úr jarðvarmaveitum til þess að efla grænmetis- og ávaxtarækt í landinu?

Síðast en ekki síst: Hvers vegna er ekki helmingur af hagnaði nýju bankanna við yfirtöku gömlu bankanna notaður til þess að bjarga ungu fólki frá fjárhagslegu og tilfinningalegu gjaldþroti. Það eru þúsund leiðir til bjargar ef augu alþingismanna opnast - og þeir þora!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Allt góðir og gildir punktar. Merkilegt hvað atvinnustjórnmálamenn sjá ekki það sem mörgum finnst liggja beinast við.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 5.10.2010 kl. 18:07

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Snjall og beinskeyttur pistill, Tryggvi, og ekki vantar þig góðar hugmyndir.

Ég tel reyndar Steingrím ætla sér að leggja þennan fyrirfram-lífseyrissjóðaskatt á, þegar hann verður búinn að blóðmjólka fyrirtæki og almenning í landinu – ef hann fær þá tækifæri til þess, en mótmælaaðgerðirnar bera vonandi tilætlaðan árangur: Burt með þessa vanhæfu ríkisstjórn!

Tek undir þetta með þér: "Hvers vegna eru vextir ekki lækkaðir til þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað?" Eins það, sem þú segir um fullvinnslu fiskafla, í sem mestum mæli. En einnig tel ég fullkomlega óhætt að auka ársaflann og það á þorskinum ekki sízt.

Þetta á hins vegar ekki að verða vanhæfri ríkisstjórn að fjáruppsprettu í sín vitlausu verkefni og til að greiða ólögvarðar kröfur erlendra ríkja.

Síðasta tillaga þín er líka tímabær og kemur vel á vonda: Nýju bankarnir keyptu kröfur gömlu bankanna fyrir slikk, en innheimta af grimmd og svipta fólk heimilum sínum án þess að blikna – og svo kaupa auðmenn þetta af þeim á enn minna slikk!

Eru menn hissa á því, að margir hafa misst þolinmæðina?

Jón Valur Jensson, 5.10.2010 kl. 18:18

3 Smámynd: Einar Karl

Til að halda í lækna þarf væntanlega helst að hækka laun þeirra.

Er það gerlegt nú?

Einar Karl, 6.10.2010 kl. 09:48

4 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Til þess að halda í lækna þarf að gefa þeim von, ekki hærri laun, Einar Karl.

Tryggvi Gíslason, 6.10.2010 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband