Fegurð Íslands

Undir kvöld ókum við Gréta úr "Blásölum himnanna" norður í sæludalinn, sveitina besta, að Hrauni í Öxnadal, þar sem Jónas fæddist forðum. Á leið okkar úr borginni um Kjalarnes og Hvalfjörð blasti haustfegurðin alls staðar við í logninu. Í Borgarfirði hljómaði haustsinfónía landsins í þúsund tónum með skugga Snæfellsness í norðri og hvítt Okið og Eiríksjökul í austri.

Ekki var fegurðin í Húnavatnssýslum minni þar sem Strandafjöllin blánuðu vestan Húnaflóa og að austan spegilskyggnd fjöllin á Skaga með flatan koll Spákonufells nyrst. Þegar við ókum út Víðidal roðnaði Borgarvirki, einstakt í sinni röð á Íslandi - eins og segir í gömlu landafræðinni - og svört kirkjan á Þingeyrum minnti á horfna sögu landsins.

Af Vatnsskarði sýndist Drangey svört, en Málmey og Þórðarhöfði blá og aftansólin feykti rauðri glóð úr Glóðafeyki. Í suðri reis Mælifellshnjúkur eins og brjóst á ungri blökkukonu. Kóróna fegurðarinnar var skuggamynd Hraundranga og yfir skein skær kvöldstjarna.

Dýrmætt er að eiga þvílíkt land og geta notið fegurðar þess sem kostar ekkert utan virðingu okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Skæra kvöldstjarnan" hefur sennilega verið Júpiter sem er óvenjubjartur núna.

Hólímólí (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 05:57

2 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Já, við eigum fallegt land, gott að minnast á það. Og gott að við reynum að varðveita okkar fallega náttúru.

Úrsúla Jünemann, 10.10.2010 kl. 16:34

3 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Satt segir þú, Úrsúla. Landið er fagurt og þessa fegurð verðum við að varðveita.

Tryggvi Gíslason, 10.10.2010 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband