9.10.2010 | 23:46
Fegurð Íslands
Undir kvöld ókum við Gréta úr "Blásölum himnanna" norður í sæludalinn, sveitina besta, að Hrauni í Öxnadal, þar sem Jónas fæddist forðum. Á leið okkar úr borginni um Kjalarnes og Hvalfjörð blasti haustfegurðin alls staðar við í logninu. Í Borgarfirði hljómaði haustsinfónía landsins í þúsund tónum með skugga Snæfellsness í norðri og hvítt Okið og Eiríksjökul í austri.
Ekki var fegurðin í Húnavatnssýslum minni þar sem Strandafjöllin blánuðu vestan Húnaflóa og að austan spegilskyggnd fjöllin á Skaga með flatan koll Spákonufells nyrst. Þegar við ókum út Víðidal roðnaði Borgarvirki, einstakt í sinni röð á Íslandi - eins og segir í gömlu landafræðinni - og svört kirkjan á Þingeyrum minnti á horfna sögu landsins.
Af Vatnsskarði sýndist Drangey svört, en Málmey og Þórðarhöfði blá og aftansólin feykti rauðri glóð úr Glóðafeyki. Í suðri reis Mælifellshnjúkur eins og brjóst á ungri blökkukonu. Kóróna fegurðarinnar var skuggamynd Hraundranga og yfir skein skær kvöldstjarna.
Dýrmætt er að eiga þvílíkt land og geta notið fegurðar þess sem kostar ekkert utan virðingu okkar.
Athugasemdir
"Skæra kvöldstjarnan" hefur sennilega verið Júpiter sem er óvenjubjartur núna.
Hólímólí (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 05:57
Já, við eigum fallegt land, gott að minnast á það. Og gott að við reynum að varðveita okkar fallega náttúru.
Úrsúla Jünemann, 10.10.2010 kl. 16:34
Satt segir þú, Úrsúla. Landið er fagurt og þessa fegurð verðum við að varðveita.
Tryggvi Gíslason, 10.10.2010 kl. 17:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.