Orð hinna skriftlærðu - prófessora, fræðimanna og farísea

Lítið leggst fyrir fræðimenn og prófessora í lögspeki og stjórnvísindum sem nú láta til sín heyra um komandi stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá sem fulltrúar fólksins í landinu munu leggja drög að.

Í ummælum hinna skriftlærðu kemur fram vantrú á raunverulegt lýðræði þar sem fólkið, lýðurinn, ræður. Þeir nefna engu orði, að framboð 500 karla og kvenna á öllum aldri sýni, hversu mikill áhugi er í raun á því að leggja sitt af mörgum til þess að setja þjóðinni nýja og betri stjórnarskrá.

Þeir nefna engu orði, að bak við 500 frambjóðendur eru 15 til 25 þúsund meðmælendur auk þrjátíu til fimmtíu þúsund vitundarvotta eða samtals 45 til 75 þúsund manna, karla og kvenna, sem þegar hafa sýnt þessu máli áhuga.

Þeir nefna engu orði, að kynning á öllum frambjóðendum verður send inn á hvert heimili. Þeir nefna engu orði, að fólk geti búið sig undir kosningar með kjörseðli sem sendur verður til allra kjósenda. Þeir nefna engu orði, að atkvæði allra eru jöfn og landið eitt kjördæmi og unnt að kjósa hvar sem er. Þeir nefna engu orði, að kjörseðlar verða skannaðir inn í eitt talningarkerfi fyrir allt landið. Þeir nefna engu orði, að þetta er fyrsta stjórnlagaþing sinnar tegundar í heiminum – og því heimssögulegur atburður.

Nei. Birgir Guðmundsson dósent og deildarforseti félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri segir kosningarnar mjög flóknar og fæli fólk frá og ef þátttaka verði dræm komi það niður á umboði þingsins og vægi.

Guðmundur Hálfdanarson prófessor í sagnfræði við HÍ segir hlæjandi að 500 frambjóðendur geri kosningarnar mjög flóknar og þær verði óbundnar stjórnmálaflokkum og kosið um persónur sem fólk þekki ekki og erfitt að koma kynningu við.

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í félagsvísindum við Háskóla Íslands segir kosningarnar muni „snúast upp í fegurðarsamkeppni”, eins og hann orðar það, og ekki verði unnt kynna frambjóðendur af "neinu viti og lögmæti samkomunnar verði því umdeilanlegt".

Sigurður Líndal, fyrrum prófessor við Háskóla Íslands, kórónar svo skömmina með því að segja, að enginn þörf sé á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og honum lítist ekkert á stjórnlagaþing. „Mjög mikið vanti í þennan leik allan”, eins og hann orðar þetta. Taka hefði þurft eitt ár í umræður „bestu manna” og fá hefðu þurft nokkra „stjórnspekinga sem geri tillögu um stjórnarskrá" - þá megi boða til stjórnlagaþings. Á komandi stjórnlagaþingi muni „þrefarar og þrasarar taka yfirhöndina” og ræða um allt og ekkert. Umræðan í landinu undanfarin ár hafi byggst á vanþekkingu og rætt hafi verið um málið af „miklu rugli”. Stjórnarskrá sé því betri sem hún sé eldri.

Ljóst er af þessum orðum að stjórnspekingar verða ekki því betri sem þeir verða eldri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sigurður Líndal er mikill stjórnspekingur, og ég er sammála ýmsu sem hann segir, m.a. þessu um vanþekkinguna, en ekki hrakspá hans um stjórnlagaþingið, – þar eiga menn að leggja kapp á að velja hæfa menn með þjóðholl viðhorf inn á þingið.

Hin viðhorfin eru réttilega gagnrýnisverð, sem og þessi vitlausa fyrirsögn stórrar fréttar á Rúv.is: 'Stjórnarskráin nánast óbreytt frá 1874', en lökustu ummælin, sem ég veit af, er þau frá Ragnhildi Helgadóttur, lagaprófessor í HR, að "auðvitað [!!!!] þurfi að afnema fullveldisákvæðin úr stjórnarskránni" (kannski ekki orðrétt svo, en þetta var inntakið).

Við eigum það sameiginlegt, Tryggvi, að mæla gegn niðurrifstali þeirra, sem fjalla í einskærri fýlu um þetta stjórnlagaþing og vilja fá fólk til að sinna því í engu og jafnvel sitja heima.

27. nóvember má enginn sannur Íslendingur með kosningarrétt sitja heima.

PS. Kröftug er grein þín, magnaður, áhrifaríkur stíll ... En Sigurður Líndal verðskuldar betri meðferð en þetta hjá okkur öllum.

Jón Valur Jensson, 20.10.2010 kl. 03:24

2 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Sigurður Líndal er alls góðs maklegur og hann hefur sem "stjórnmálaspekingur" lengi fengið að láta ljós sitt skína og ekki sett ljós sitt undir mæliker. Hins vegar er hann ekki undanþeginn gagnrýni fremur en aðrir dauðlegir menn. Ummæli hans á vef MBL á dögunum eru að mínum dómi gagnrýnisverð vegna dómgirni og oflætis. Þar talar hann um að umræðan undanfarin ár hafi "byggst á vanþekkingu" og rætt hafi verið um málið af "miklu rugli" og "stjórnspekingar" eigi að gera drög að stjórnarskrá sem lögð verði fyrir almúgann. Undanfarin ár og áratugi hafa birst fræðilegar greinar um stjórnarskrána skrifaðar af þekkingu og víðsýni. Auk þess hefur gagnleg umræða farið fram í blöðum, útvarpi og sjónvarpi um stjórnmál og lýðræði. Þegar Sigurður Líndal talar svo um vanþekkingu og rugl er mér nóg boðið. Þetta er málflutningur sem engum vitugum manni er samboðinn. En hvað sem því líður, Jón Valur, erum við sammála um að stjórnlagaþing verður að takast vel. Nú er tækifæri sem kemur ekki (strax) aftur.

Tryggvi Gíslason, 20.10.2010 kl. 12:58

3 Smámynd: Þorgeir Ragnarsson

Tryggvi, hvað áttu við með að auðlindir skuli vera í eigu þjóðarinnar? Hvaða auðlindir ertu að tala um?

Auðlindir eru allt það í náttúrunni sem menn geta nýtt sér til framleiðslu og/eða tekjusköpunar. Þá getur rétt eins verið átt við tún og akurlendi, grjót- eða malarnámu, ár og vötn ásamt tilheyrandi veiðiréttindum o.s.fr.

Styður þú eignaupptöku á eignum af þessu tagi? Upptöku á eignum sem margar hverjar eru í eigu bænda eða annars venjulegs fólks sem af einhverjum ástæðum eru landeigendur. Við erum alls ekki að tala um auðmenn, bara venjulegt fólk. Nokkrir bændur hafa fyrir eigin reikning reist smávirkjanir og selja orku inn á landskerfið, hver er afstaða ykkar til þess o.s.fr.?

Vitað er að tiltekin öfl í VG vilja t.d. að öll vatnsréttindi verði í eigu ríkisins, vafalaust eru það vatnsréttindin sem eru í forgrunni þessarar sameignarstefnu með auðlindir. Framkvæmd slíkrar stefnu þýddi í raun að eignarréttur hefði verið afnuminn gagnvart landeigendum. Slík aðgerð stenst ekki núverandi stjórnarskrá. Er það af þeim sökum sem þið viljið nýja?

Þurfið þið sem óskið breytinga af þessu tagi ekki að skýra dálítið betur hvað þið eigið við. Eignarrétturinn er ein af meginundirstöðum réttláttra og friðsamra samfélaga.

Þorgeir Ragnarsson, 20.10.2010 kl. 17:23

4 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Ég svaraði þessum spurningum þínum, Þorgeir, á öðrum stað hér á bloggsíðu minni, en skal endurtaka svar mitt hér og bæta við svarið vegna frekari spurninga þinna.

Þegar ég tala um "eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum" á ég við allar auðlindir lands og sjávar, bæði náttúruauðlindir sem nú eru þekktar og þær sem eiga eftir að koma í ljós og þá jafnvel tún og akurlendi, grjót og malarnám eins og þú nefnir.

Arður af öllum þessum auðlindum á að renna óskiptur í ríkissjóð og úr honum á Alþingi aðeins að geta veitt. Í því felst "eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum".

Í gildandi stjórnarskrá stendur, að eignarrétturinn sé friðhelgur og engan megi skylda til þess að láta af hendi eign sína - nema almenningsþörf krefji - og komi fullt verð fyrir. Þessu tel ég ekki ástæðu til að breyta.

Hvað "öfl í VG vilja" veit ég ekki, þar hef ég aldrei verið innan búðar. Hins vegar vil ég að öll vatnréttindi séu í eignarhaldi þjóðarinnar, almenningseign. Það er í samræmi við nútímann. Ef einstaklingur á hins vegar sögulegan og lögvarinn rétt á náttúruauðlind og eignarhald hans skaðar ekki almannaheill, verður að virða þann eignarrétt eins og annan persónulegan lögvarin eignarrétt.

Tryggvi Gíslason, 20.10.2010 kl. 18:35

5 Smámynd: Þorgeir Ragnarsson

Að hafa þessi tvö ákvæði saman á þennan hátt í nýrri stjórnarskrá mun gera hana mótsagnakenndari en þá sem nú þegar er í gildi.

Semsagt, þá verður nýja ákvæðið um þjóðareign annað hvort dauður bókstafur og engin breyting í raun - eða þá að menn þurfa að breyta viðmiðum sínum um það hvað það þýðir að "almenningsþörf krefji" eða "...skaði ekki almannaheill"...

Seinni kosturinn er frekar ógeðfelldur, það er vitað hvert hann mun leiða smátt og smátt.

Hvað vatnsréttindin varðar þá er vert að benda á að eftir þjóðlendumálin svokölluðu hefur ríkið þegar sölsað undir sig vænan skerf af vatnsréttindum á landinu, þó ekki séu öll kurl komin til grafar í þeim efnum. Að ganga enn lengra í þá átt eftir það tel ég lýsa einhverju allt öðru en hófsemi.

Þorgeir Ragnarsson, 21.10.2010 kl. 09:25

6 Smámynd: Þorgeir Ragnarsson

Þú segir:

"Þegar ég tala um "eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum" á ég við allar auðlindir lands og sjávar...Arður af öllum þessum auðlindum á að renna óskiptur í ríkissjóð og úr honum á Alþingi aðeins að geta veitt. Í því felst "eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum"...eignarrétturinn sé friðhelgur og engan megi skylda til þess að láta af hendi eign sína - nema almenningsþörf krefji - og komi fullt verð fyrir. Þessu tel ég ekki ástæðu til að breyta."

Segðu mér Tryggvi, hvernig ætlarðu að samræma feitletruðu athugasemdirnar hér að ofan? Þær stangast algjörlega á.

Þú fullyrðir að allur arður af öllum aulindum eigi að renna óskiptur í ríkissjóð. Hvernig á þá fólk sem hefur eignarhald á auðlindum, t.d. gegnum landareign að geta líka haft tekjur af eigninni? OPg ef ríkið ætti að bæta öllum tjónið hvort sem er, hver er þá tilgangur í að láta fjármunina hringsóla fram og aftur milli ríkis og fyrri eigenda?

Liggur ekki í augum uppi að ríkið ætlar ekki að skila neinu til baka í huga þeirra sem halda þessari stefnu á lofti?

Þorgeir Ragnarsson, 21.10.2010 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband