22.10.2010 | 11:49
Hvers vegna stjórnlagaþing nú?
Enn velta margir því fyrir sér hvort - og hvers vegna halda eigi frjálst stjórnlagaþing nú og hvers vegna þurfi að setja lýðveldinu Íslandi nýja stjórnarskrá á þessum síðustu og verstu tímum svika, tortryggni og vonleysis.
Nokkrir grónir fræðimenn og einstaka gamlir atvinnustjórnmálamenn, sem réðu ríkjum áratugum saman, hafa fundið kosningunum flest til foráttu: þær séu flóknar og stjórnlagaþingið muni skipað óhæfum og umboðslausum fulltrúum og "kverúlöntum. Ný stjórnarskrá verði marklaust plagg af því að bestu menn hafi ekki um hana fjallað. Tíminn sé ekki réttur, engin umræða hafi farið fram og núverandi stjórnskrá sé góð af því að hún er gömul og dönsk, eða belgísk eða jafnvel frönsk!
Sumt af því sem sagt hefur verið undanfarna vikur í þessari umræðu, er að sjálfsögðu í samræmi við íslenska umræðuhefð þar sem notuð eru stór orð, reynt að koma höggi á andstæðinginn og meiri áhersla lögð á útlit en innihald til þess að vekja athygli.
Ef það er rétt að ákveðnir hópar í samfélaginu vilji ekki taka þátt í því að móta nýja stjórnarskrá ber það vitni um andúð á lýðræðinu. Lýðræði er að vísu bæði stórt orð, mikið notað og iðulega misnotað. Lýðræði er hins vegar einstakt orð, bein þýðing á gríska orðinu demokratia, sem sett er saman af orðunum demos: fólk og sögninni kratein: ráða og merkir að lýðurinn, almenningur, ráði stjórn landsins.
Allir fræðimennirnir og gömlu atvinnustjórnmálamennirnir telja sig lýðræðisinna í orði. Því vekur það furðu af hverju þeir leggjast gegn því að almenningur, fólk upp og ofan, ungt og gamalt, konur og karlar, borgarbúar og sveitamenn, lærðir og leikir fái tækifæri til þess að spreyta sig á því að leggja drög að nýrri stjórnarskrá sem síðan verður send Alþingi og eftir það lögð fyrir alla þjóðina til samþykktar eða synjunar.
Hvað veldur þessu? Hvers vegna eru lýðræðissinnar eins og Björn Bjarnason og Birgir Guðmundsson, Sigurður Líndal og Guðmundur Hálfdanarson, sem skrifað hefur bók um "íslenska þjóðríkið uppruna og endimörk", á móti lýðræðinu? Er það vegna þess að þeir fá ekki að ráða og segja til um það umfram annað fólk hvernig stjórnskráin á að líta út - eða er það vegna þess að þetta er í þeirra augum ekki lýðræði fyrst stjórnmálaflokkar, stjórnspekingar og fræðimenn eru ekki látnir ráða ferðinni - eða sjá þessir karlar (því engin kona hefur opinberlega lagst gegn þessu) að nýir tímar eru í uppsiglingu, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim?
Alræði elítunnar er á undanhaldi víðs vegar um heim í kjölfar þess að völd hafa verið misnotuð í skjóli peninga og þjóðfélagsstöðu og vegna þess að menntun er að aukast. Ekki er lengur hægt að segja sauðsvörtum almúganum fyrir verkum. Samskipti fólks eru að breytast með tilkomu netsins þar sem unnt er að afla upplýsinga og leita frétta með nýjum hætti, og prentmiðlar eru á undanhaldi og einnig ljósvakamiðlanir.
Ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands verður nýr vegvísir og sáttmáli og kemur í stað gamallar, úreltrar, orðmargrar og óskipulegrar stjórnarskrár. Vonandi er að sem flestir þekki sinni vitjunartíma og dæmi sig ekki úr leik heldur taki þátt í lýðræðinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.