25.10.2010 | 21:00
Hvers vegna stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá
Enn velta menn því fyrir sér hvers vegna halda skal stjórnlagaþing sem almenningur kýs þar sem forsetinn, alþingismenn og ráðherrar eru ekki kjörgengir. Einnig velta menn því fyrir sér hvort setja þurfi Íslandi nýja stjórnarskrá á þessum síðustu og verstu tímum svika, tortryggni og vonleysis.
Nokkrir fræðimenn og gamlir atvinnustjórnmálamenn, sem ráðið hafa ríkjum áratugum saman, hafa fundið kosningunum og þinginu flest til foráttu: þær séu flóknar, erfitt verði að kynna 500 frambjóðendur, þingið muni skipað óhæfum fulltrúum, ný stjórnarskrá verði marklaust plagg af því að bestu menn hafi ekki um hana fjallað, eins og Sigurður Líndal sagði í viðtali við MBL. Tíminn sé ekki réttur, engin umræða hafi farið fram og núverandi stjórnskrá sé góð af því að hún sé gömul.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og doktor í stjórnmála- og stjórnsýslufræðum, segir, að þeir sem eru þekktir, búsettir á höfuðborgarsvæðinu, hefðu aðgang að fjármagni og væru í sveigjanlegri vinnu ættu mesta möguleika á að fóta sig í væntanlegri kosningabaráttu til stjórnlagaþings, eins og haft var eftir honum í DV í ágúst, og hundruð ef ekki þúsund kynnu að bjóða sig fram og kosningaþátttakan verði eins góð og í hefðbundnum" kosningum.
Þessir úrtölumenn telja sig vafalaust boðbera lýðræðis og jafnréttis, lausa við fordóma og meinbægni. Spádómar þeirra vekja hins vegar furðu og torskilið er af hverju þeir leggjast gegn því að almenningur, fólk upp og ofan, ungt og gamalt, konur og karlar, borgarbúar og sveitamenn, lærðir og leikir fái tækifæri til þess að spreyta sig á því að leggja drög að nýrri stjórnarskrá sem send verður Alþingi og síðan lögð fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Áhættan getur ekki talist mikil og ef stjórnlagaþinginu tekst ekki að sameinast um góðar tillögur tekur hið snauða Alþingi sem er rúð trausti almennings við og bætir um betur.
En það er önnur hlið á þessu máli. Almenningur hefur misst trú á stjórnmálamönnum og Alþingi nýtur ekki trausts. Hins vegar hefur almenningur sýnt stjórnlagaþinginu áhuga. 500 frambjóðendur til 25 þingsæta er tákn um lifandi áhuga almennings á virku lýðræði og fólk almenningur - vill leggja sitt af mörkum til að móta nútímalega stjórnarskrá. Að baki 500 frambjóðendum eru 15 til 25 þúsund meðmælendur auk 30 til 50 þúsund vitundarvotta eða samtals 45 til 125 þúsund manns sem þegar hafa sýnt þessu máli áhuga.Kynning á stjórnlagaþinginu er þegar hafin.
Kynning á öllum frambjóðendum verður send inn á sérhvert heimili. Hver frambjóðandi fær 120 orð til þess að kynna sig. Kynning á fjórum frambjóðendum kemst á hverja síðu. Kynningarbæklingurinn verður því um hundrað síður sem tekur sæmilega læst fólk klukkustund að hornalesa slíkan bækling. Sýnikjörseðill verður fenginn hverjum kjósanda í hendur fjórum vikum fyrir kjördag.
Kjósendur geta því búið sig undir kosningarnar og útfyllt sýnikjörseðilinn og kosið einn frambjóðanda eða 25 frambjóðendur með því að skrifa fjögurra stafa tölu á kjörseðilinn. Í þessum kosningum til stjórnlagaþings almennings eru atkvæði kjósenda jöfn og landið eitt kjördæmi. Kjörseðlar verða skannaðir inn í talningarkerfi fyrir allt landið og það sem er mest um vert: þetta er fyrsta stjórnlagaþing sinnar tegundar í heiminum og því heimssögulegur atburður.
Ný stjórnarskrá verður nýr vegvísir til framtíðar og samfélagssáttmáli sundraðrar þjóðar og kemur í stað gamallar, úreltrar, orðmargrar og óskipulegrar stjórnarskrár. Þjóðin hefur gengið gegnum mikla erfiðleika og orðið að líða fyrir ódugnað og sundrungu stjórnmálamanna og embættismanna og glæpsamlegu athæfi manna í viðskipta- og atvinnulífi.
Samhliða endurreisn efnahagslífs verður að fara pólitísk endurreisn: aukin mannvirðing, jafnrétti á öllum sviðum, meira gagnsæi, betri upplýsingar, bætt siðferði í stjórnmálum, aukinn heiðarleiki í viðskiptum og fjármálum - og bætt umræðuhefð.
Til að stuðla að þessu er efnt til stjórnlagaþings þjóðarinnar. Sjálfstætt stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá geta stuðlað að því að sameina sundraða þjóð, lægja öldur og vekja von og auka traust á Alþingi, stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Ný stjórnarskrá gæti því orðið samfélagssáttmáli í kjölfar mesta áfalls í sögu íslenska lýðveldisins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.