Sælir eru fátækir í anda

Í morgun ræddi ég við gamla vinkonu mína sem bæði er orðin gömul að árum – komin á níræðisaldur, og hefur auk þess verið vinkona mín meira en hálfa öld. Hún er því gömul vinkona í tvennum skilningi.

Þegar við tölum saman, verða umræðurnar oft heimspekilegar. Ekki svo að skilja, að við sláum um okkur með lærðu orðalagi heimspekinga og torræðu tali. Nei, við tölum um lífið og tilveruna á einfaldan hátt, fegurð hversdagsleikans, um réttlæti og ranglæti hér í heimi, um gott og illt í manninum og þá gjarnan hvað í því felst að vera maður – vera almennileg manneskja, eins og sagt var fyrir austan.

Hún vinkona mín sagði mér, að hún hefði verið bæði seinþroska, barnaleg og einföld langt fram eftir aldri og gæti sennilega aldrei losnað við barnaskapinn. Sagði ég henni, að það væri öfundsvert að vera bæði barnalegur, seinþroska og einfaldur. Í fyrsta lagi virtust þeir sem væru seinþroska eldast betur en hinir sem yrðu fullorðnir þegar á barnsaldri.

Í öðru lagi fælist í mínum huga mikil einlægni í því að vera barnalegur, enda hefði frelsarinn sagt ýmislegt um börnin og einlægni þeirra, en hann var bæði vitur maður og mikill hugsuður og jafnvel einn mesti heimspekingur allra tíma.

Þá sagði ég líka við hana, að eftir því sem árin færðust yfir mig, félli mér betur við þá sem væru einfaldir en hina sem þykjast vita allt og skilja allt, en vissu svo ekkert og skildu fátt. Enda hefði frelsarinn átt við okkur - hina einföldu - þegar hann mælti: Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband