3.11.2010 | 14:23
Er Evrópusambandið eina leiðin?
Lengi fannst mér tvær þjóðir búa í þessu landi, þjóðin í borgríkinu Reykjavík - og hin þjóðin. Nú er mér farið að finnast eins og margar þjóðir búi í þessu fagra og landi og gjöfula: fátækt fólk og ríkt, menntað fólk og ómenntað, hógvært fólk og dónar, hugsandi fólk og götulýður og að sjálfsögðu ungt fólk og gamalt, konur og karlar, sjómenn og bændur, iðnaðarmenn og ófaglærðir - og svo atvinnustjórnmálamenn sem ekki koma sér saman um neitt, þótt landið sé að sökkva - eða hvað.
Ýmislegt bendir nefnilega til þess, að landið hafi aðeins sokkið að hluta. Meðan þúsundir þurfa að þiggja mat í plastpokum og íbúðir 20 þúsund fjölskyldna séu á uppboði, getur fjölmargt fólk leyft sér hvað sem er í efnalegu tilliti. Bjórkrár eru fullar af fullu fólki kvöld eftir kvöld, veitingastaðir og sælkerahús eru troðin af úttroðnu fólki á besta aldri viku eftir viku, uppselt er að verða í sólarlandaferðir í vetur og dýrir bílar eru farnir að seljast aftur eins og heitar lummur, en sumir virðast telja það bera vitni um velmegun í landinu.
Hefur eitthvað gleymst? Hefur hrunið ekki kennt nýríkum og sjálfselskum Íslendingum neitt? Getur ekkert komið okkur í skilning um að jafnrétti, hófsemi og mannvirðing á að gilda? Eða getum við ef til vill ekki bjargað okkur sjálf? Þurfa aðrir að koma okkur til hjálpar, eins og lærðir menn frá útlöndum í Silfri Egils prédika sunnudag eftir sunnudag? Er Evrópusambandið ef til vill eina leiðin?
Athugasemdir
Hverju myndi Evrópusambandið breyta í þessum efnum? Fyrir utan annað. Hverju breytti sambandið fyrir Íra? Eða Grikki? Ef eitthvað þá ýtti veran í því og evran undir óhóf og dró úr aðhaldi.
Seint verður sagt að mannvirðing sé ríkjandi hjá Evrópusambandinu sem lítur svo á að valdið komi að ofan eins og margoft hefur sýnt sig t.d. í afstöðu sambandsins til þjóðaratkvæðagreiðslna innan þess og þá er ljóst að þar á bænum eru sumir jafnari en aðrir. Daðrað er við stórfyrirtæki og Evrópusambandinu er stjórnað af embættismanna- og stjórnmálaelítu sem nýtur ríkulegra forréttinda. Í samræmi við þetta krefst sambandið þess að fá verulega auknar greiðslur frá ríkjum þess til að fjármagna sig og þ.m.t. að leggja á eigin skatta á sama tíma og það krefst þess að ríkin skeri harkalega niður í velferðarkerfum sínum.Nú síðast bárust fréttir af því að Evrópusambandið ætlaði að verja sem nemur 1.260.000.000 krónum í húsgögn í höfuðstöðvar nýrrar utanríkisþjónustu sambandsins í Brussel og 6 milljörðum króna í brynvarðar bifreiðar fyrir nýja sendiherra sína. Tengslin við raunveruleikann eru ekki mikil þar á bænum.
Nei, Evrópusambandið er engin lausn. Það þarf margt að laga hér á landi, svo mikið er víst, en innganga í sambandið væri á heildina litið stórt skref í ranga átt.
Hjörtur J. Guðmundsson, 3.11.2010 kl. 15:49
Ef Evrópusambandið væri lausn, þá væri Evrópa löngu farin að virka. En það gerir hún ekki. Þar er framtíðin kolsvört fyrir þegnana.
Það hefur verið Evrópu til happs að Bandaríkin hafa varðveitt friðinni þar frá lokum heimsstyrjaldar númer tvö sem Evrópa hefur stofnað til á innan við 100 árum.
En nú er friðurinn líklega úti einu sinni enn. ESB er að sprengja Evrópu í loft upp. Það sýður og kraumar aftur á hryllingsverkstæði Evrópu.
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 3.11.2010 kl. 16:51
Vandamálið er að Kaupmannahafnarvaldið fór aldrei lengra en til Reykjavíkur 1904.
Það þarf að koma valdinu áfram frá Reykjavík til fólksins.
Því þarf nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga.
Slík aðgerð samhliða inngöngu í ESB er vænleg leið.
Sjá nánar: http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/1110672/
Hallur Magnússon, 3.11.2010 kl. 20:02
Hallur Magnússon vill þá borga ferðir Íslendinga til Brussel og Frankfurt svo þeir megi stunda þar virkt lýðræði með því að mótmæla og henda eggjum upp á 64 hæð seðlabanka Evrópusambandsins. Henda eggjunum í fólkið sem ræður en sem enginn í ESB kaus.
Verst er að þeir Íslendingar sem aðhyllast Evrópusambandið hafa ekki hina minnstu hugmynd um hversu gott þeir hafa það, og já, þrátt fyrir kreppuna og bankahrunið.
Að sjoppa með fullveldi Íslands í æðiskasti óttans ætti að vera bannað.
Kveðja frá einum eftir 25 ár í ESB.
Gunnar Rögnvaldsson, 3.11.2010 kl. 20:35
Ef við gengjum í Evrópusambandið þýddi það að valdið yfir flestum okkar málum færðist til stjórnmálamanna sem við kysum ekki en þó einkum embættismanna sem enginn kýs. Íslenzkt fullveldi heyrði einfaldlega sögunni til.
Nálægðarreglan svokölluð, sem Hallur er sennilega með í huga, virkar ekki innan Evrópusambandsins og er fyrst og fremst upp á punt. Rauði þráðurinn í gegnum sáttmála sambandsins er einfaldlega sá að það hefur alltaf síðasta orðið um það hvernig málum á þeim sviðum sem heyra undir vald þess er háttað í krafti síns miðstjórnarvalds.
Nóg er að lesa Lissabon-sáttmálann svokallaðan (eða réttara sagt stjórnarskrá Evrópusambandsins) þar sem talað er um málaflokka sem sambandið hefur eitt vald yfir og síðan málaflokka þar sem valdið er deilt með því og ríkjunum. Hins vegar er tekið fram að vald ríkjanna er alltaf víkjandi fyrir valdi Evrópusambandsins.
Það sem Hallur talar um, og sem notabene er allrar athygli vert, gengi einfaldlega aldrei upp samhliða inngöngu í Evrópusambandið.
Hjörtur J. Guðmundsson, 3.11.2010 kl. 20:37
Svo má bæta því við að ef við gengjum í Evrópusambandið yrði Lissabon-sáttmálinn ekki aðeins æðri almennri löggjöf hér á landi heldur einnig stjórnarskrá Íslands.
Hjörtur J. Guðmundsson, 3.11.2010 kl. 20:40
Ha ha, framtíðin kolsvört fyrir þegna ESB. Hvergi staðar í neinum heimshluta eru lífskilyrði betri en einmitt í Evrópu. Menn tala til dæmis mjög um hversu hroðalegt atvinnuleysi er í ESB en sama gildir um það, ekki í neinum heimshluta er minna atvinnuleysi. Opinberar tölur um atvinnuleysi í Bandaríkjunum er nú um 9-10%(ekki reiknað með inn í þessar tölur þeir sem eru atvinnulausir lengur en 6 mánuði sem ér mjög stór hópur og því er atvinnuleysi þar örugglega í kringum 14%). Hagvöxtur í ESB löndum hefur verið töluvert hraðari og lífskilyrði batnað miklu mun hraðar í Evrópu en í Bandaríkjum(kaupmáttur venjulegs fólks í BNA hefur minnkað á seinustu 30 árum en Bandaríkin voru ofboðslega rík þjóð fyrir nokkrum áratugum).
Í norður Evrópu eru lönd eins og Danmörk og Holland tveimur áratugum á undan bandaríkjunum í efnahagi. Þjóðarframleiðsla USA er meira en 70% einkaneysla, með öðrum orðum froða.
Tökum dæmi um bandaríska og danska fjölskyldu.
Danska fjölskyldan kaupir 2 reiðhjól og notar almenningssamgöngur. Bandaríska fjölskyldan kaupir Dodge Ram pallbíl. Það hefur kostnað eins og viðhald og bensínkostnað í för með sér(gleymum heilbrigðiskostnaði vegna offitu). Þetta hefur nákvæmlega sama verðmætaaukningu í för með sér, koma fólkinu frá og til vinnu. Nema það að þjóðarframleiðsla Bandaríkjanna rísur miklu meira við þessa tvo ferðamáta.
Bandarísku hjónin vinna 50 tíma á viku á meðan sú danska vinnur 36 tíma, en dönsku hjónin koma nákvæmlega sama í verk á þessum 36 klukkutímum eins og þjóðarframleiðslan segir til um(en þó að mínu mati eru dönsku hjónin að koma meiru í verk þar sem þjóðarframleiðsla bandaríkjanna er eins og áður sagði froða og því endurspeglar ekki í raun verðmæti í sama magni og danska þjóðarframleiðslan). Þegar heim úr vinnu er komið er bandaríska fjölskyldan líklegri til að fá til dæmis garðyrkjumann(eða unglinga) til að slá grasið fyrir sig, bóna bílinn, mála húsið og svo framvegis eins og er mjög algengt í bandaríkjunum, þetta gerir danska fjölskyldan jafnan sjálf. Hefur sömu verðmætaaukninguna, nema að þegar bandaríska fjölskyldan borgar öðrum til að gera það, þá hækkar það þjóðarframleiðsluna.
Bandaríska fjölskyldan býr í stærra húsi, með loftkælingu á sumrin og þarf meiri orku til að hita upp á veturna, stærri eldhúsinnréttingu, stærra sjónvarp og svo framvegis, allt fer þetta í að hækka þjóðarframleiðsluna.
Heilbrigðiskostnaður bandarísku fjölskyldunnar er töluvert hærri en það kostar að heilbrigðisþjónusta dönsku fjölskyldunna, SAMT er danska fjölskyldan heilbrigðari, og SAMT hækkar þessi óhagkvæmni í bandaríska heilbrigðiskerfinu þjóðarframleiðsluna meira en sú danska.
Reyndar má segja að þjóðarframleiðsla dana sýni kannski heldur rétta mynd af verðmætaaukningu þar sem fantagott félagslegt kerfi þeirra eykur þjóðarframleiðslu(fólk fær bætur, eða námsstyrki, kaupir vörur og fleira sem eykur þjóðarframleiðslu) en atvinnuleysi er töluvert minna í Danmörku en í bandaríkjunum, en bætur eru á móti töluvert meiri og því skekkir það myndinni. Á móti kemur þessu að Bandaríkjamenn bruðla miklu meira í hergögn og stríðsrekstur. Hærri glæpatíðni í bandaríkjunum stuðlar líka að hærri þjóðarframleiðslu, enda þótt þar sé um að ræða kostnað fyrir þjóðfélagið, ekki verðmætasköpun.
Þjóðarframleiðsla er því vægast sagt mjög lélegur mælikvarði á hversu sprækur efnahagur er. En til að hafa þetta einfalt. Danir hafa minna atvinnuleysi, heilbrigðara starfsfólk, meiri framleiðni, minni skuldir, minni fjárlagahalla, betri viðskiptajöfnuð, meiri menntun, minni glæpi. Sumsé um það bil tveimur eða þremur áratugum á undan USA í efnahagi, 3-4 áratugum á undan USA í lífsgæðum.
Jón Gunnar Bjarkan, 3.11.2010 kl. 20:43
Varðandi Grikki og Íra.
Berum saman það sem hefur gerst í Grikklandi og á Íslandi í þessari krísu.
1. Skuldir Íslenska ríkisins hækkuðu um hvað mikið, 400%? Grikkir voru skuldugir fyrir en bæta aðeins á sig. Þessar þjóðir eru nú í mjög svipaðari stöðu hvað varðar ríkisskuldir og fjárlagahalla.
2. Íslendingar tóku svaðalegan skell á sig við gengishrunið. Þetta vilja spekingarnir meina að sé alveg rosalega gott fyrir efnahaginn. En þetta er mjög sambærilegt of Gríska ríkið myndi skera öll laun í Grikklandi um 50%, öll laun, ekki bara í opinbera geiranum.(miðað við að gengisvísitala evrunnar myndi ekki hækka við þessar grísku aðgerðir). Maður þætti gaman að sjá Hjört og Gunnar fara hérna um á blogginu og tala um hvernig Grikkland sé algjörlega komið á hausinn þar sem þeir séu nú að lækka laun um 50%, en þetta er nú samt sem þeir lofa íslensku krónuna fyrir hér heima. Einu aðgerðirnar sem ég hef heyrt af í Grikklandi í launamálum er að laun opinberra starfsmanna standi í stað, það eru nú öll ósköpin.
3. Grikkir og Íslendingar eru að fara í svipaðar aðgerðir til að minnka fjárlagagati, skattahækkanir, niðurskurð og eftirlaunaaðgerðir(Grikkir eru að hækka eftirlaunaaldur í 63 ár sem þykir nú ekki mikil skerðing hér á Íslandi).
4. Atvinnuleysi á Íslandi hefur rokið upp um mörg hundruð prósent á meðan atvinnuleysi hefur hækka lítið í Grikklandi. (þó er meira atvinnuleysi í Grikklandi en hér.)
5. Grikkir hafa verið með um 2-3 falt meiri hagvöxt en Íslendingar undanfarinn 20 ár og því ættu þeir að eiga betur með að ráða við þessar skuldir en við.
Ætla menn síðan að halda því fram að ESB aðild og evra hafi ekki hjálpað Grikklandi í þessari heimskrísu?
Jón Gunnar Bjarkan, 3.11.2010 kl. 20:55
Vandamálið er að Kaupmannahafnarvaldið fór aldrei lengra en til Reykjavíkur 1904.
Það þarf að koma valdinu áfram frá Reykjavík til fólksins.
Því þarf nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga.
Slík aðgerð samhliða inngöngu í ESB er vænleg leið.
Sjá nánar: http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/1110672/
Hallur Magnússon, 3.11.2010 kl. 20:59
Því miður Hallur. Þú þekkir ESB greinilega of litið. Þar er lýðræði á undanhaldi og afar illa séð. Þar þora yfirvöld ekki að spyrja þegnana.
Veist þú hvað stjórnsýsla er? Hefur þú prófað stjórnsýslu í ESB?
Þegar þú gengur í ESB flyst ákvörðunarvald Íslands og Íslendinga til þeirra sem enginn kaus. Það flyst aftur úr landi og Ísland verður nýlenda á ný.
Er það draumur þinn?
Gunnar Rögnvaldsson, 4.11.2010 kl. 10:12
Var að kíkja á bloggið þitt Hallur Magnússon, þú færð mitt atkvæði. Maður er eiginlega ekki búinn að setja sig inn í stjórnlagaþing stellingar, hvað fær maður að kjósa marga frambjóðendur, vitið þið það strákar?
Varðandi lýðræði í ESB sem Gunnar drap á hér að ofan.
Lýðræði er langt frá því að vera á undanhaldi í ESB, enda er hvergi staðar í heiminum lýðræði meira í hávegum haft og einmitt í ESB löndunum, þetta vitnar hver rannsóknin á fætur annarri. Þar er líka frelsi fjölmiðla mest sem er undirstaða lýðræðis.
Í ESB sem slíku, þá er hvorki skortur á lýðræði né það á undanhaldi ekki frekar að það sé skortur á lýðræði í seðlabanka íslands eða hæstarétti íslands. Gunnar talar um að þar "þori" ekki yfirvöld að "spyrja" þegnanna og meinar hann þá þjóðaratkvæðisgreiðslu. En ekki man ég að Gunnar hafi kvartað yfir skorti á lýðræði á Íslandi síðustu 70 ár á Íslandi þangað til yfirvöld "þorðu" loksins að spyrja þegnana í þjóðaratkvæðisgreiðslu fyrir um ári síðan í Icesave málinu. Oft má maður líka sjá á bloggi Gunnars hvað hann er hrifinn af Bandaríkjunum en þau hafa þó aldrei þorað að spyrja þjóðina um eitt né neitt(sem þjóð hefur USA held ég aldrei haldið þjóðaratkvæði, sum ríki hafa þó haldið þjóðaratkvæðisgreiðslu um eigin mál, alveg eins og evrópuþjóðir gera margoft, væntanlega um 100 þjóðaratkvæðisgreiðslur í Evrópu undanfarinn 20 ár eða svo).
Auðvitað er það rétt að framkvæmdanefnd ESB er skipuð af fólki frá öllum þjóðum ESB sem eru kosin af lýðræðislega kjörnum forsætisráðherrum ESB landanna. Tillögur sem þetta fólk smíðar er síðan lagt fyrir lýðræðislega kjörið þing ESB. Á þetta að vera ólýðræðislegt? Því þá er verið að segja að lýðræði á Íslandi sé á undanhaldi þar sem Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir voru skipuð í ríkisstjórn íslands?
Þú verður eitthvað að endurhugsa þetta Gunnar.
Jón Gunnar Bjarkan, 4.11.2010 kl. 11:01
Þú færð mig til að hljóma eins og sovéskan andófsmann Jón Gunnar. Mikið getur fjarlægðin gert fjöllin þín blá.
Gunnar Rögnvaldsson, 4.11.2010 kl. 11:29
Já þú vilt líka þræta fyrir það, sjáðu þá bara sjálfur eina rannsóknina, tekur nú ekki nema 2-3 mínútur að sækja eina:
http://en.wikipedia.org/wiki/Democracy_Index
Svíþjóð í 1st sæti, þeir eru nú í ESB seinast þegar ég vissi. Svo eru reyndar Noregur og Ísland þar á eftir, svo Holland, Danmörk og Finnland. Viltu að ég sæki líka fyrir þig rannsóknir hvað varða fjölmiðlafrelsi vinurinn?
Jón Gunnar Bjarkan, 4.11.2010 kl. 12:04
Já takk, fyrst þú hefur þetta svona við höndina. Geturðu ekki líka, Jón Gunnar, gaukað að mér svona eins og einni skýrslu sem sýnir að allir eru að flytja til Finnlands, því þar er allt svo gott.
Get ég gefið út svona skýrslu sjálfur Jón Gunnar? Svona lista?
Gunnar Rögnvaldsson, 4.11.2010 kl. 12:18
Nei ég get ekki sagt að ég viti um neina skýrslu sem bendir til þess að allir séu að flytja til Finnlands, ég get hinsvegar bent þér á tölur hagstofunnar sem sýnir að það er landflótti frá Íslandi ef það hjálpar þér eitthvað í þessari vegferð þinni.
En já já, ég er ekkert að taka eitthvað ofurmark á þessum skýrslum um lýðræði eða fjölmiðlafrelsi, svo ég veit alveg hvert þú ert að fara með þessu kommenti um að búa til svona lista sjálfur. Ég reikna þó með að The Economist hafi heldur meira fjármagn til að standa að svona rannsókn.Ég viðurkenni alveg að það er kannski ekki mikið mark takandi á einhverjum skýrslum eins og þessum.
Það er hinsvegar þó algerlega fráleitt að halda því fram að það sé einhver skortur á lýðræði í Evrópu eða ESB og ég hafna því algerlega. Ekki hefur þú til dæmis talað fyrir því að það sé lélegt lýðræði á Íslandi eða Noregi, þótt við förum eftir sömu lögum og ESB í nánast öllum flokkum og höfum, þvert á ESB þjóðir, enginn áhrif á smíði þessara laga enda fáum við þau bara send í pósti.
Jón Gunnar Bjarkan, 4.11.2010 kl. 12:27
Gunnar, þú ert nú mikill hagfræðispekingur, hvað þykir þér um þennan pistil, virtur hagfræðingur að tala um að USA sé algerlega gjaldþrota og í miklu verri stöðu en Grikkland, það land í ESB sem er talið í verstu stöðu innan sambandsins.
http://www.theglobeandmail.com/report-on-business/commentary/neil-reynolds/the-scary-actual-us-government-debt/article1773879/
Jón Gunnar Bjarkan, 4.11.2010 kl. 12:52
Tryggvi,
Takk fyrir góðan pistil og spurningar. Eins dauði er annars brauð, segir máltækið og það á líka við litla íslenska hagkerfið. Hin gríðarlega gengisfelling sem varð hér felldi öll krónulaun í landinu en þeir sem eru í "gjaldeyrishagkerfinu" var hlíft og margir í þeirra hópi sem reka útflutningsfyrirtæki fengu góða búbót í formi lægri launakostnaðar sem rennur sem hagnaður í þeirra vasa. Það er því ekkert undarlegt að allar sólalandarferðir séu uppbókaðar og veitingahús yfirfull.
Þannig hefur krónan alltaf virkað, flutt fjármagn frá launafólki yfir til þess hóps útflytjenda sem hafa sambönd og kunna sitt fag. Þeir eru líka svo heppnir að í þeirra hópi eru margir skussar sem alltaf spila rassinn úr buxunum sem kallar á enn meiri gengisfelling til að bjarga "öllum". Þetta er klassísk Darwin lögmál, þeir sterkustu lifa og lifa í vellystingum á Íslandi.
Evran myndi ekki útrýma þessu kerfi en draga verulega úr sveiflunum og hlífa launafólki mun betur en krónan.
Andri Geir Arinbjarnarson, 4.11.2010 kl. 13:11
Kæri Jón Gunnar
Lönd sem prenta sína eigin peninga og eru með lán sín í eigin mynt verða aldrei ríkisgjaldþrota. Hins vegar er eðlilegt að Bandaríkin verjist fölsku gengi kjarna-evrulanda + Asíu og leyfi sér, aldrei þessu vant, að hugsa um að bjarga sínum málum. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur það sem kallað er "dual mandate"; þ.e.a.s honum er skylt sjá til þess að full atvinna sé í landinu og einnig að verðlag sæmilega stöðugt. Þetta er mjög skynsamlegt.
Eins og þú kannski veist þá er það Bandaríkjamönum að þakka að myntin evra er ennþá til (FT: 10. október 2010: How Washington pushed Europe to save the euro). Mæli með þessari þriggja greina seríu Financial Times.
Ofaní þetta hafa Bandaríkjamenn verið svo vænir að varðveita friðinn í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. En nú eru þeir á förum þaðan og Evrópa komin í gang á ný, þ.e.a.s komin í gang með innri ófrið og yfirríkislega tilburði við önnur lönd meginlandsins, sérstaklega þau sem lítil eru.
Sem sagt Jón Gunnar: Einungis lönd sem geta ekki gefið út sína eigin peninga og eru samtímis með flest lán sín í erlendum myntum (dæmi; Finnland, Grikkland, Portúgal, Írland), eiga á hættu að veða ríkisgjaldþrota.
Sú undarlega staða er komin upp á Vesturlöndum, að verðbólga er horfin og hættan á verðhjöðnun er verðbólguhættunni enn skelfilegri. Þá prentar maður peninga til að skapa auknar verðbólguvæntingar (þessir peningar eru nú ekki prentaðir sem slíkir, heldur eru þeir búnir til í tölvukerfum seðlabankans og notaðir til að kaupa verðpappíra. Svo dregur maður þetta inn til baka á sama hátt. En þetta er einungis á færi alvöru seðlabanka. Þetta getur seðlabanki Evrópusambandsins ekki gert að neinu ráði.
Gunnar Rögnvaldsson, 4.11.2010 kl. 13:19
Evrusvæðið getur prentað peninga alveg nákvæmlega eins og Bandaríkjamenn. Þú ert alltaf að rugla þessum málum saman, getur California prentað sína peninga, að sjálfsögðu ekki. ECB prentar ekki peninga sérstaklega fyrir Grikkland ef það er í vanda frekar en Federal reserve prenti peninga sérstaklega fyrir Hawaii ef það er í vanda. Það er heildin hérna sem skiptir máli í báðum tilfellum Evrursvæðið gefur svo út ríkisskuldabréf í Evrum, alveg eins og Bandaríkin gefa út ríkisskuldabréf í dollurum.
Síðan segir þú að það sé eðlilegt að bandaríkin verjist falsgengi kjarna-evrulanda og Asíu. Mér þykir það nokkuð undarlegt að setja evruna(mjög hátt verðlag á henni, um það bil 40% sem hún hefur risið gagnvart dollara síðan henni var ýtt úr vör) og lágu gengi Asíu gjaldmiðla eins og til dæmis Kína. Ég hef heyrt um að dollarinn og kínverski gjaldmiðillinn sé á falsgengi en þú ert fyrsti maðurinn sem ég heyri tala um Evruna á þann hátt. En að veikja gengi evrunnar er leikur sem ECB á inni en Federal reserve ekki. Ætli það væri ekki hægt að kaupa allan bílaiðnað, boeing verksmiðjurnar og fleiri fyrirtæki fyrir þá peninga sem prenta þyrfti til að hífa evruna niður á par við dollara. ESB gæti þannig hjálpað útflutningsfyrirtækjum sínum með gengislækkun og eignast í kringum 10% af efnahag Bandaríkjanna fyrir peningana sem kæmu út úr prentvélinni. Eins og ég segi, þetta er leikur sem ECB á inni, það er lítið vandamál að lækka gengi gjaldmiðils, meira segja íslenski seðlabankinn getur trampað niður íslensku krónuna, en öllu erfiðara er að ná honum aftur upp. Það er því öfundsverð staða sem ECB er í, að eiga þetta inni.
En hvað varðar markmið Federal reserve, að halda uppi atvinnu og halda niðri verðlagi, þá skal þó auðvitað nefna að ECB hefur stendur sig nú töluvert betur í báðum málaflokkum enda er nú atvinnuleysi í USA meira en í ESB og verðlag er stöðugara.
Jón Gunnar Bjarkan, 4.11.2010 kl. 13:45
Það er verslað með evruna á gjaldeyrismörkuðum.
Hvernig getur markaðurinn falsað gengin evrunnar?
Ég skil það ekki.
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 14:27
Hann er að meina að til dæmis Kínverjar séu að halda sínum gjaldmiðli niðri. Það er reyndar alveg hægt að stjórna gengi ("falsgengi" eins og hann kallar það) dollara eða evru, veikja það með aukinni seðlaprentun og hækka það með stýrivaxtahækkun(laðar fjárfesta að evrunni með hærri vöxtum) en það er töluvert erfiðara að hækka gengi fljótandi gjaldmiðils þar sem grundvöllur fyrir því að það hækki er að markaðurinn hafi trú á seðlabankanum og treysti honum fyrir fjárfestingu. Slíkt traust getur verið erfitt að endurheimta þegar það er farið eins og við íslendingar erum að sjá núna.
En út af einhverri ástæðu er hann að setja evruna og asíu gjaldmiðlana í sama flokk sem er auðvitað svolítið skakkt, því þeir eru almennt taldar á sitt hvorum endanum, evran sterk, og asíu gjaldmiðlarnir veikir. Ég held allavega að þetta sé það sé sem hann er að tala um en ég ætla ekkert að fara gera honum upp skoðanir, það væri langt frá því sanngjarnt.
Jón Gunnar Bjarkan, 4.11.2010 kl. 14:36
Stefán: Dönitz mynt Evrópusambandsins er hættulegur rekaviður
Kveðjur
PS: Jón Gunnar. Þú, eins og svo margir aðrir, skilja ekki muninn á myntbandalagi og mynt sjálfstæðra ríkja með ríkisfjárlögum via skattgreiðendum. En þú ert alls ekki sá eini sem gerir sér ekki grein fyrir þessu, og ert því fullt út afsakaður.
En verra var hins vegar að hönnuðir myntbandalags Evrópusambandsins, og umsjónarmenn þess (ECB), gerðu sér heldur ekki grein fyrir alvöru málsins. Þetta mál er mun dýpra en þú virðist gera þér grein fyrir. Ekkert jafnast á við þjóðríkið og fullveldi þess. Bandaríkin eru einmitt þjóðríki.
Gunnar Rögnvaldsson, 4.11.2010 kl. 14:41
Já já það er alltaf hægt að rökræða á hvaða gengi hinir og þessir gjaldmiðlar hafi átt að fljóta inn í evruna. Mér þætti það nú samt mjög langsótt fyrir bandaríkjamanna að réttlæta enn meiri dollaraveikingu með því að Þýskaland hafi farið inn í evruna of lágt, þar sem evran er nú um það bil 40% sterkari en dollari, nokkrum árum eftir að henni var ýtt úr vör á pari við dollara. Þú ert þó varla að halda fram að Þjóðverjar hafi farið inn í evruna á meira en 40% of lágu gengi? Og jafnvel þó svo væri, sem ég trúi ekki, þá er það bara eitt land á öllu evrusvæðinu(reyndar það stærsta). Í öðru lagi þá má ekki vanmeta þá veikingu sem sameining Vestur og Austur Þýskalands hafði lækkun marksins því jafnvel þó Vestur Þýskaland væri lang ríkasta þjóð Evrópu á þessum tíma þá var Austur Þýskaland mjög fátækt og það hlýtur nú að endurspeglast í gengi gjaldmiðilins, ég get ekki séð að það sé eitthvað fals.
Skil nú ekki afhverju þú sást ástæðu til að éta ofan í mig þetta:
"Þú, eins og svo margir aðrir, skilja ekki muninn á myntbandalagi og mynt sjálfstæðra ríkja með ríkisfjárlögum via skattgreiðendum."
Þetta breytir því ekkert að California getur ekki prentað sína peninga og breytir heldur ekkert að Evruríki geta gefið út ríkisskuldabréf í evrum alveg eins og Bandaríkin gefa út ríkisskuldabréf í dollurum.
ESB hafa að vísu einhver sameiginleg fjárlög, til dæmis í landbúnaði. En já auðvitað viðurkenni ég að ESB er ekki næstum því eins "integrated" eins og USA, en bara til að skjóta því inn í, ríki í bandaríkjunum hafa reyndar mikið rúm til ákvarðana í skattamálum, bæði hvað varðar tekjuskatt og sales tax(er það ekki virðisaukaskattur, held það). Til dæmis er oft talað um Delawere og Illionois að mig minnir sem tax havens ekki ólíkar Lúxembourg og Hong Kong. En jú jú, USA hefur Federal skattkerfi, ekki ESB.
Bottomline is:
Evran er að þrælvirka. Ég man þegar evruumræðan stóð hérna yfir nýlega eftir hrunið, þá var talað um að með stöðugleika evrunnar þá þyrftu menn að taka kreppur með atvinnuleysi í staðinn fyrir gengisfellingu. Hvernig er staðan núna? Nánast enginn aukning í atvinnuleysi í ESB, í það minnsta er aukning atvinnuleysis í USA og Íslandi margföld miðað við ESB aukningu, og í ofanálag, þá hafa Evruríkin ekki tekið á gengisfelling, meðan íslendingar tóku um 50% gengisfellingu á sig og Bandaríkjamenn einhverja fellingu líka.
En þetta er búið að vera fínasta umræða, alltaf ágætt að tala við þig annað en með flesta Esb andstæðinga hér á blogginu. Þarf að rjúka, tilbúinn að taka þetta upp aftur á morgun.
Jón Gunnar Bjarkan, 4.11.2010 kl. 15:28
Gunnar: Ertu með alvöru heimildir eða aðeins 3ja flokks?
Geturðu ekki sagt mér hvar markaðurinn er að falsa gengi evrunnar?
Á ég að blogga um það að ég sé nærsti keisarinn í kína og blogga um það og hafa það sem heimild um það að ég sé nærsti keisarinn í kína?
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 16:03
Jón Gunnar.
Verði þér að góðu. En það stendur sem sagt ekki til, mér vitandi, að Ísland gangi í Bandaríkin. En þegar einhverjum dettur í hug að plata saklausa Alþingismenn til að senda inn umsókn Íslands í Bandaríkin, algerlega í andstöðu við þorra þjóðarinnar, þá mun ég benda þeim á þig.
Stefán; já ég er með góða heimild. Eg bjó í ESB í samfleytt 25 ár og upplifði af eigin raun, á sál, líkama og seðlaveski, hvernig tilurð myntbandalagsins fór fram. Allir vita að gengi myntar Þýskalands er gróflega falsað. Og hér komum við aftur að þessu með myntbandalag versus þjóðríki. Þetta væri ekkert mál ef Þýskaland hefði stráð þessum þúsund miljörðum Bandaríkjadala til hinna ríkjanna í ESB, þ.e.a.s. að þessir fjármunir hefðu farið í sameiginlegan ríkissjóð. Halló!
En það gerðu þeir sem sagt ekki. Þýskaland blóðmjólkar hina áfram á fölsuðu gengi. Við skulum heldur ekki tala um hina stanslausu 12 ára innvortis gengisfellingu Þýskalands í þessu læsta gengisfyrirkomulagi.
Myntbandalagið læsti EMU-löndin saman í föstu gengisfyrirkomulagi. Price adjustment mekanisminn var tekinn af þeim. Síðan var lyklinum hent burt og ríkin látin kála hverju öðru í eilífri innvortis gengisfellingu. Það er það sem við sjáum gerast í dag.
Við megum sennilega þakka fyrir ef þetta getur farið fram án nýrrar styrjaldar í Evrópu. Hættan er mikil.
Gunnar Rögnvaldsson, 4.11.2010 kl. 16:25
Gunnar: Það er ekki hætta á neinu.
Hvar ertu með heimilidir fyrir þessu?
Ég er að halda upp á 9 ára Berlínar afmæli í þessum mánuði og um áramótin 14 ára afmæli.
Ekkert af því sem þú segir stendst. Hvar hafa ríkin kvartað yfir þessu? Af hverju var ekkert gert þegar ákveðið var á kvaða "gengi" ríkin tækju þátt í evrusamstarfinu?
Af hverju var þá ekki hætt við það eða annað gengi tekið upp?
Af hverju taka þjóðir ekki ábyrgð á eigin fjármálum?
Þetta er eintóm þvæla í þér. Synd að fólk trúir svona vitleysu.
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 16:38
Stefán:
Það eina sem þú þarft að gera er að hugsa:
Allir sem hugsa vita að ef Þýskaland væri með sína eigin mynt, þýska markið, væri gengi þess einn á móti tveimur Bandaríkjadölum eða meira. En það er bara einn á móti einn komma þremur dölum.
Ef Bandaríkin myndu endurgjalda þennan þýskalemjandi óheiðarleika í alþjóðlegum viðskiptum, myndu þau strax ganga til þeirra þarfaverka með því að falsa gengi Bandaríkjadals. Það gerðu þau t.d. með því að hleypa allri Suður-Ameríku inn í eitt dollarasvæði. Þá myndi gengi Bandaríkjadals lækka mikið, því þá gætu Bandaríkin notið góðs af því að hafa vanefna annars flokks hagkerfi með í myntinni sinni. Þetta er evrusvæðis aðferðin.
Ef Þýskaland væri með D-Markið ennþá, þá veistu ofurvel að gengi þess væri allt annað og hærra en gengi evrunnar er í dag. Þú þarft ekki að heita neitt sérstakt til að vita þetta.
Gunnar Rögnvaldsson, 4.11.2010 kl. 16:43
Gunnar: Gengi evru er í dag 1,40. Gengi marksins er þá u.þ.b. 2,80.
ertu að segja það að gengi evrunnar án allara annara landa ætti að vera 3,00 eða 6,00 mörk á móti dollar?
Ríkin sem eru í evrusamstarfinu gengu í það á ákveðnu gengi eða "stuðli".
Stuðull Íslands í dag væri 230 ef Ísland gengi í evrusamstarfið. En ekki á genginu einum á móti einum eins og þú ert einhvern veginn að gefa í skyn.
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.