Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja

Í dag, laugardag 6ta nóvember 2010, var haldinn þúsund manna þjóðfundur í Reykjavík. Fólk alls staðar að af landinu, ungt fólk og gamalt, karlar og konur, lærðir og leikir komu saman til þess að láta í ljós álit sitt á því hvernig ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið ætti að líta út.

Lítið þýðir að segja að fundurinn hafi verið heimssögulegur atburður, því heimurinn er stór og Ísland er lítið. Þjóðfundurinn var heldur ekki fyrsta frétt í fjölmiðlum heimsins heldur ofbeldi í skjóli hervalds, misrétti í skóli auðvalds og yfirgangur í skjóli blindra stjórnvalda sem troða á rétti barna, kvenna og fátæks fólks.

Þjóðfundurinn ER engu að síður heimsögulegur atburður af því slíkt hefur aldrei verið reynt áður í hinum stóra heimi. Þjóðfundurinn er einnig sögulegur atburður á litla Íslandi og markar tímamót í sögu þjóðar og á fundinum ríkti einurð, samstaða - og bjartsýni.

Enda er margt gott að gerast með þessari fámennu þjóð. Ungt fólk vinnur afrek á sviði tónlistar, leiklistar, íþrótta og annarrar menningar og staðarmenning eflist um allt land. Hugmyndir fæðast um nýjar leiðir í atvinnumálum og landið býr yfir auðlindum: hreinu vatni, hreinu lofti, jarðvarma, fallorku og síðast en ekki síst gjöfulum fiskimiðum.

En heimilum landsins er að blæða út. Á meðan sitja alþingismenn eins og umskiptingar og formaður stærsta stjórnmálaflokksins segist ekki vinna með stjórn landsins af því að hann viti allt, skilji allt og geti allt. Auk þess leggst flokkurinn gegn því að ný stjórnarskrá sé samin. Sú gamla sé nógu góð.

Þegar lærisveinarnir spurðu Jesú, hvers vegna hann talaði til manna í dæmisögum, sagði hann: Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum að sjáandi sér þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. Þetta á við um alþingismenn. Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.

Þjóðin mun hins vegar ekki tala til þeirra í dæmisögum - heldur í verkum sínum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband