8.11.2010 | 13:31
Að loknum þjóðfundi, svar til leiðarahöfundar MBL
Sorglegt er að lesa leiðara Morgunblaðsins í dag. Ályktunarorð leiðarans eru, að engin skýring hafi komið fram á því að einmitt nú verði að gera atlögu að stjórnarskránni.
Sorglegt er að lesa háðslegt orðbragð, niðurbælda reiði, útúrsnúninga og dulinn ótta um þetta mikilsverða mál. Sorglegt er að þetta gamla málgagn heiðarlegra íhaldsmanna leggst svona lágt.
Sorglegt er að svona er komið fyrir umræðu Morgunblaðsins sem undir forystu Matthíasar Johannessens og Styrmis Gunnarssonar fór fyrir í málefnalegri umræðu um ágreiningsmál í stjórnmálum um áratuga skeið.
Nú reynir leiðarahöfundur Morgunblaðsins að gera vilja meginhluti þjóðarinnar hlægilegan og þykist ekki skilja það sem flestum hugsandi mönnum er ljóst.
Ný stjórnarskrá er nauðsyn eftir verk spilltra stjórnmálamanna og glæpsamlegt athæfi einstakra manna í viðskiptalífinu undanfarin ár. Þjóðin er ekki síður reið en leiðarahöfundur MBL og hefur til þess meiri ástæðu. Afskræmd frjálshyggja og stjórnmálaspilling lagði líf tugþúsunda manna í rúst, ekki gamla, danska stjórnarskráin - heldur brostið siðvit.
Ný stjórnarskrá er nauðsynleg til þess að treysta siðvit og tryggja undirstöður lýðræðis, skýra þrískiptingu valds og eignarhald þjóðarinnar á auðlindum, stjórnarskrá sem reist á virðingu fyrir öllum einnig þeim sem hafa andstæða skoðun en það er grundvöllur heilbrigðrar umræðu.
Heiðarlegum Íslendingum mun á grundvelli jafnréttis á öllum sviðum og skýrrar þrískiptar valds takast að reisa landið úr rústunum frjálshyggjunnar, en verk óbótamanna gleymast ekki.
Athugasemdir
Takk fyrir þessi skýru orð Tryggvi.
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 14:51
Seint mun slitna slefan á milli ritstjórans og hrokans. Góður pistill. Takk.
Björn Birgisson, 8.11.2010 kl. 15:11
Er sammála þessum orðum. Málið er að allar breytingar á stjórnarskránni sem taka á núverandi flokksræðiskerfi vegaa að valdakerfinu. Leiðara Moggans í dag ber að skoða í því ljósi.
http://eyjolfurarmannsson.com/
Eyjólfur Ármannsson, 8.11.2010 kl. 18:06
Það sem ergir sjálfstðisflokkinn er aðskilnaður ríkis og kirkju, aukin völd forseta og aðskilnaður lögjafa og framkvæmavalds. Raunar allt, sem menn nefna í þessu samhengi öllu. Þeir vilja óbreytt ástand, enda hafa þeir einmitt þrifist á þessu meingallaða plaggi fram að þessu. Það er ekki út í loftið að þeir hafa verið kallaðir íhald, skilurðu.
Jón Steinar Ragnarsson, 8.11.2010 kl. 20:12
Ég hef fyrir löngu sagt upp áskrift að Morgunblaðinu en þegar ég heyrði af leiðara blaðsins í dag fannst mér sem frambjóðanda til Stjórnlagþings ekki verjandi að lesa hann ekki. Það tókst mér.
Þvílík lágkúra, ég segi ekki meira.
Þakka þér fyrir þessa ágætu ádrepu Tryggvi, ég hef engu við hana að bæta.
Sigurður Grétar Guðmundsson, 8.11.2010 kl. 22:00
Yfirlýst var við gerð stjórnarskrárinnar 1944 að hún yrði endurskoðuð hið fyrsta.
Nú er búið að bíða í 65 ár eftir því og Alþingi hefur ekki verið þess megnugt.
Er það ekki nóg tilefni?
Hve margar aldir þarf að bíða, Davíð Oddsson?
Ómar Ragnarsson, 8.11.2010 kl. 22:57
Fór bankakerfið á hliðina vegna lélegrar stjórnarskrár ? Tæplega
Guðmundur Kristinn Þórðarson, 8.11.2010 kl. 23:01
Það er þakkarvert að endurskoða stjórnarskrána. Þá mun þjóðin ná að safna áttum, því núverandi hrun veldur miklum vanda í þjóðarvitundinni.
Ég bind miklar vonir við þetta verk og vona að það sameini þjóðina meir en nokkuð annað sem sett hefur verið í gang.
Það olli mér miklum vonbrigðum að lesa téða ritstjórnargrein og lesmálið þar segir mér að þörfin sé brýn á lagfæringum, enda hafa stjórnmálamenn ekki verið færir um að ljúka verkinu.
Sigurður Alfreð Herlufsen, 9.11.2010 kl. 00:41
Bankakerfið fór áreiðanlega ekki á hliðina vegna lélegrar stjórnarskrár. En það er ekki tilgangurinn með stjórnarskrárbreytingu að treysta fjármálastofnanir.
Hinsvegar vona ég að stjórnarskráin muni í framtíðinni verða stjórnvöldum aðhald í þá veru að þau geti ekki lengur orðið ábyrgðarlaus við hagstjórn þjóðarinnar.
Árni Gunnarsson, 9.11.2010 kl. 08:58
Ég er nú á því að léleg stjórnarskrá hafi átt verulegan þátt í því hvernig fór hér. Valdastrúktúrinn bauð upp á spillingu, sérhagsmunapot og nepotisma. Annarstaðar í hóflega spilltum löndum sjá lobbýistar og spunadoktorar um að ná fram sérhagsmunum auðrónanna en hérna eru lobbýistarnir, spunadoktorarnir og auðrónarnir í ráðherrastólum.
Jón Steinar Ragnarsson, 9.11.2010 kl. 10:00
Guðmundur Kristinn. Þú spyrð, hvort bankakerfið hafi farið á hliðina vegna lélegrar stjórnarskrár - og svarar þér sjálfur og segir: "tæplega".
Gildandi stjórnarskráin var auðvitað ekki eina ástæðan. Hins vegar var gamla, danska stjórnarskráin frá 1874 - eða 1849 ein af ástæðunum, vegna þess að stjórnvöld, alþingismenn og afdankaðir fræðimenn báru ekki virðingu fyrir henni. Alþingi þvældi henni fyrir sér eins og böggluðu roði og breytti henni þegar þeir vildu bæta stöðu stjórnmálaflokka sinna með því að breyta kosningalögum og kjördæmaskipan - eða þegar alþingismenn voru neyddir til þess að breyta henni vegna kröfu utan úr heimi.
Alþingismenn eiga hins vegar ekki að geta sett þau lög sem Alþingi á að fara eftir, frekar en knattspyrnumenn eiga ekki að geta sett sér þau lög sem þeim er gert að fara eftir, enda gera þeir það ekki - það gera aðrir.
Sérstak stjórnlagaþing - kjörið af þjóðinni - á að setja Alþingi lög, setja allri þjóðinni grundvallarlög. Slíkt á að vera einkenni í núttímalýðræðisríki. Hitt er liðin tíð. Þess vegna stjórnlagaþing nú - og nýja stjórnarskrá nú.
Tryggvi Gíslason, 9.11.2010 kl. 10:16
Ég er því sammála þér, Jón Steinar!
Tryggvi Gíslason, 9.11.2010 kl. 10:19
Kannski er einmitt þessi áminnsti leiðari í Morgunblaðinu næg ástæða til þess að efasemdarmenn um breytingar á stjórnarskránni endurskoði afstöðu sína.
Það er næstum einboðið að þeir sem ganga harðast fram í að tala þetta stjórnlagaþing niður koma frá sömu pólitísku átt.
Segir það okkur ekki nóg?
Árni Gunnarsson, 9.11.2010 kl. 10:53
Leiðari Davíðs í gær í MBL segir mikið um Davíðs-arm Sjálfstæðisflokksins, Árni. HIns vegar eru sem betur fer aðrir í Sjálfstæðisflokknum er Davíð, Bjarni Benediktsson og þeir með Engeyjarlaginu, með bröttu stefnin og liggja djúpt. En ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að dæma sig úr leik við stjórnlagaþingið getur það orðið honum dýrkeypt. Hvar er þá gamla lýðræðisást flokksins?
Tryggvi Gíslason, 9.11.2010 kl. 11:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.