26.11.2010 | 12:39
Ný stjórnarskrá - ný hugsun - lýðræðisleg hugsun
Eitt meginmarkmið með endurskoðun gildandi stjórnarskrár er að gera lýðum ljóst, að uppruni valdsins er hjá þjóðinni, almenningi, kjósendum ekki forseta og því síður hjá ráðherrum og ríkisstjórn. Í skólum landsins ber að kenna að lýðræði er hugsun - ekki aðeins form. Lýðræðisleg hugsun byggist á virðingu fyrir öllum, jafnrétti og frelsi fyrir til orða og athafna. Lýðræðisleg hugsun kristallast í orðinu mannvirðing.
Annað markmið með endurskoðun stjórnarskrár er að tryggja skýra og algera skiptingu löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavaldsvalds og kveða á um eðli og takmörk fjórða valdsins - fjölmiðlanna, og fimmta valdsins, fjármagnsins eða auðvaldsins.
Fækka á þingmönnum og bjóða fram í tvímenningskjördæmum með jöfnu vægi atkvæði. Með því er ábyrgð alþingismanna aukin, þekking þeirra á hagsmunum fólks verður meiri, tengsl við kjósendur nánari og meiri athygli beinist að hverjum og einum þingmanni. Þekking, persónuleg kynni og ábyrgð eru krafa í upplýstu fulltrúalýðræði.
Komið skal á þriðja stjórnsýslustiginu, fjórðungunum, til þess að efla sveitarstjórnir og veita ríkisvaldinu aðhald og tryggja búsetu í landinu öllu. Fámenni og dreifðar byggðir - sveitirnar - hafa miklu hlutverki að gegna og eru hluti af menningarsögu þjóðarinnar.
Ný stjórnskráin á einungis að geyma grundvallarlög meginreglur samfélagsins - og þessum grundvallarlögum á Alþingi ekki að geta breytt heldur sérstakt stjórnlagaþing.
Í nýrri stjórnarskrá þarf að tryggja réttindi minnihluta á Alþingi svo og minnihluta kjósenda. Á Íslandi ríkir meirahlutaræði þar sem meirihlutinn hefur komist upp með að virða skoðanir minnihlutans að vettugi.
Skýr ákvæði þarf í nýja stjórnarskrá um þjóðaratkvæði þannig að ljóst sé hvenær kjörnir fulltrúar eiga einir að taka ákvörðun og hvenær almenningur. Tryggja að fleiri en forseti geti lagt mál í hendur þjóðinni, bæði minnihluti þingmanna og ákveðinn hluti kjósenda. Slík ákvæði um þjóðaratkvæði yrðu til þess að veita meirihlutanum aðhald.
Í stórmálum á þjóðin að geta staðfest ákvörðun meirihluta Alþingis í þjóðaratkvæði, svo sem þegar um er að ræða nýtingu náttúruauðlinda og samninga við erlend ríki. Þá ber að afnema það ákvæði gildandi stjórnarskrár að forseti eða réttara sagt ríkisstjórn geti leyst Alþingi upp - eða með öðrum orðum: Alþingi á að sitja út hvert kjörtímabil. Með því læra þingmenn að starfa saman, leysa vandann sameiginlega.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.