2.12.2010 | 10:39
Mikilsvert stjórnlagaþing
Komið er í ljós, hverjir sitja stjórnlagaþing 2011. Að mínum dómi hefur valið tekist mjög vel. Óska ég þingfulltrúum og þjóðinni allri til hamingju með þetta val.
Þótt búast hefði mátt við betri kjörsókn, er meira um vert, að 83.500 kjósendur nýttu sér atkvæðisrétt sinn í þessum mikilsverðu kosningum. Betra er, að hinn skapandi minnihluti velur 25 fulltrúa á stjórnlagaþing en sundurleitt Alþingi hefði kosið 12 vildarvini sína til þess að fjalla um drög að nýjum grundvallarlögum fyrir lýðveldið Ísland.
Fulltrúarnir 25 búa yfir mikilli þekkingu og mikilli reynslu, þeir hafa brennandi áhuga á þessu mikilsverða máli, hafa fjölbreytileg tengsl út í samfélagið og eru ekki fulltrúar stjórnmálaflokka. Þetta er mikils virði og mun gagnast vel.
Þjóðin mun fylgjast með störfum stjórnlagaþings og meðferð Alþingis á tillögum þingsins. Umræðan, sem staðið hefur undanfarin ár um lýðræði og jafnrétti, mun halda áfram og lýðræðis- og réttlætisvitund þjóðarinnar á eftir að eflast af þeim sökum.
Mikilsvert er að skólar landsins taki fræðslu um lýðræði, jafnrétti - og mannvirðingu skipulega í námsskrár sínar, því að lýðræði er hugsun.
Athugasemdir
Auðvitað er þetta mikilvæg umræða.
En manni féllust eiginlega hendur - þegar "sigurvegari" kosninganna kom blaðskellandi í fjölmiðla með yfirlýsingar um að "nú ætti að fækka þingmönnum og þá væri sjálf löggjafarsamkoman vanhæf".... -
Ég hef aldrei áður séð "migið á" stjórnaskrá lýðveldisins svona í beinni útsendingu.
Auðvitað gilda ákvæði stjórnarskrár - um að tillaga þessa stjórnlagaþings - fer til Alþingis - samkvæmt stjórnarskrá.
Öðruvísi getur það varla gerst. En ef framhaldið á umræðunni verður með sömu lítilsvirðingu fyrir gildandi stjórnarskrá og Löggjafarvaldinu - þá líst mér ekki á...
"Sigurvegarinn" talaði sem sagt lítilsvirðandi niður til Löggjafarvaldsins og það var dapurleg byrjun.
Ég tel að núverandi vandamál þjóðarinnar - megi frekar rekja til vanvirðingar og því að ekki er farið eftir stjórnarskrá lýðveldisins - frekar en að stjórnarskráin sjálf sé svo mikið gölluð.
En - ég ætla að vona það besta - og að þessi "sigurvegari" kosingana fái hæfilega ofanígjöf í upphafi stjórnlagaþings - fyrir að lítilsvirða gildandi stjórnarskrá og löggjafarvaldið í þessum mislukkuðu "sigurvímu-viðtals-flippi" í fjölmiðlum
Kristinn Pétursson, 2.12.2010 kl. 12:39
Sammála þér, Kristinn, að menn verða að gæta orða sinna - og mannvirðing er mitt kjörorð.
Tryggvi Gíslason, 2.12.2010 kl. 12:46
Tryggvi, þú hefur hafið til vegs og virðingar hugtakið "skapandi minnihluti." Mig rekur ekki minni til þess að Lenín hafi notað hugtakið, þegar hann braust til valda í Rússlandi, en ég geri mér í hugarlund að hugtakið gæti nýst alræðishyggju- og valdastreitumönnum allra tíma, afskaplega vel. Hvað heldur þú?
Gústaf Níelsson, 2.12.2010 kl. 23:47
Hugtakið “hinn skapandi minnihluti” á rætur að rekja til skrifa Toynbees þar sem hann heldur því fram – og færir rök fyrir – að þróun menningar eigi rætur að rekja til umhverfisins (náttúrunnar, eins og Montesquie taldi) og til “hins skapandi minnihluta” sem bendir á lausnir til þess að leysa aðsteðjandi vanda - til þess að upplýsa. Toynbee hélt því síðan fram að hrun menningar ætti ekki rætur að rekja til þess að þjóðir og ríki misstu stjórn á náttúrulegu umhverfi sínu ellegar vegna ásóknar að utan heldur vegna hnignunar “hins skapandi minnihluta” sem síðan verður að “hinum ríkjandi minnihluta”. Því miður hefur "hinn skapandi minnihluti" ekki verið áberandi á Íslandi og á það sér ýmsar orsakir sem ég fer ekki út í hér og nú.
Þetta eru merkileg fræði. Væri gagnlegt að velta þessum gömlu kenningum fyrir sér m.t.t. þess sem gerst hefur á Íslandi undanfarinn aldarfjórðun. Ég vildi sannarlega hefja hugtakið “hinn skapandi minnihluti” til vegs og virðingar, ekki síst til þess að finna lausn á þeim mikla og margvíslega vanda sem steðjar að dvergríkinu Íslandi.
Tilvísun þína til Leníns læt ég mér í léttu rúmi liggja, en hún á sér vafalaust skynsamlegar ástæður, Gústaf.
Tryggvi Gíslason, 3.12.2010 kl. 10:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.