Íslensk umræðuhefð

Halldór Laxness segir, að því hafi verið haldið fram að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur og enn síður fyrir rökum trúar, en leysi vanda sinn með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít sem ekki kemur málinu við en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna málsins.

Þessi orð voru skrifuð fyrir 30 árum, en eiga ekki síður við nú, því að umræðuhefð Íslendinga hefur lítið breyst. Því má ef til vill halda fram, að ýmiss vandi í íslenskum stjórnmálum, þjóðmálum, almennum samskiptum, fræðslu og upplýsingum eigi rætur að rekja til umræðuhefðar okkar Íslendinga.

Samræður í fjölmiðlum minna meira á kappræður en umræður. Hver talar upp í annan, gripið er fram í fyrir ræðumanni og er stjórnandi oft verstur allra. Áhersla er lögð á að gera lítið úr viðmælanda og litið á hann sem hættulegan andstæðing.

Yfirheyrslur íslenskra fréttamanna skjóta skökku við orðræður fréttamanna á Norðurlöndum og í Bretlandi. Þar sýna spyrlar viðmælendum virðingu, eru vel undir búnir og ná fram upplýsingum án persónulegra árása. Margir íslenskir fréttamenn virðast hins vegar hafa að markmiði að sanna að viðmælandinn hafi rangt fyrir sér, dragi eitthvað undan eða hafi brotið stórlega af sér.

Þetta kalla sumir forstöðumenn fjölmiðla að "sýna harðfylgni", "sauma að mönnum" og "veita viðmælanda hressilega viðtökur". Í föstum umræðuþáttum er sífellt sama fólkið kallað til. Konur eru í miklum minnihluta og fólk utan af landi sést aldrei í slíkum þáttum.

Það er því mikið verk að vinna fyrir skóla og samtök launþega og atvinnurekenda og ef til vill ætti Endurmenntum Háskóla Íslands að bjóða upp á kennslu í rökræðum, ræðumennsku og hlutlægum málflutningi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill og ég er innilega sammála þér.  Þetta minnir mig á orð sem voru eitt sinn sögð við mig og þau voru á þessa leið; "varaðu þig á fólki sem segir aldrei ... ég veit ekki."

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 19.12.2010 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband