Íslands ógæfu verður allt að vopni

Frá Hvíta-Rússlandi berast ógnvekjandi fréttir. Í evrópsku "lýðræðislandi" með þúsund ára menningu og "lýðræðislega" kjörna stjórn er saklausu fólki misþyrmt. Í löndum lengra burtu leika stjórnvöld gamlan stríðsleik og skirrast ekki við að drepa fólk, varnarlausar konur, börn og gamalmenni.

Frá Danmörku berast fréttir um, að einn af fremstu stjórnmálamönnum Norðurlanda, Bertil Haarder, sem ég kynntist fyrir aldarfjórðungi sem gáfuðum heiðursmanni, hafi misst stjórn á sér í viðtali við fréttamenn í viðræðum um þjóðfélagslegt misrétti.

Þetta ástand vekur mér umhugsun og veldur mér áhyggjum. Þó hef ég meiri áhyggjur af því sem er mér nær - og ég þekki betur - ástandinu á Íslandi. Hér ríkir velsæld, þótt misrétti sé áberandi og sumir hafi jafnvel ekki í sig og á. En ofbeldi og yfirgangur varðar hér við lög og brotamenn eru leiddir fyrir dóm. 

Fyrir 100 árum sagði orðhvatur stjórnmálamaður, að Íslands ógæfu yrði allt að vopni. Þessi orð neyðist ég til að endurtaka: Íslands ógæfu verður allt að vopni. Eftir hrun og glæpi fjárglæframanna, sem bíða dóms, er hver höndin uppi á móti annarri. Jafnvel innan stjórnarflokkananna er barist á banaspjótum með stóryrðum og brigslmælgi og stjórnarandstaðan leggur lítið gott til.

Þjóðin lifir svo áfram í vellystingum og hlustar ekki á ráðleggingar um hófsemi og aðhald, enda allir löngu hættir að trúa stjórnmálamönnum. Seðlabankinn er ríki í ríkinu með hrokafulla afstöðu sína og að baki þrumir svartagallsraus og dómsdagsspá afdankaðra stjórnmálamanna.

Hvað getur orðið til bjargar yngstu þjóð Evrópu með elsta mál heimsins?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband