28.3.2011 | 11:47
Bullöld Íslendinga
Ekki get ég varist þeirri hugsun, að bull, ergelsi og firra hafi leyst af hólmi gull, reykelsi og myrru sem talað er um í helgri bók að vitringarnir frá Austurlöndum hafi fært frelsaranum.
Bull, ergelsi og firru færa vitfirringar frá Suðurlandi okkur nú. Ég komst að þessari niðurstöðu eftir að hafa hlustað á Davíð Þór í morgunútvarpi RÚV í morgun og áður Guðmund Ólafsson, gamlan nemanda minn, og Ingva Hrafn, sem ætlast víst til allir til að þeir séu teknir alvarlaga, að ekki sé nú svo talað um borgarstjóra Reykvíkinga, sem skopast áfram að kjósendum sínum og öðrum borgarbúum, svo og þeim Sveppa og Villa (einn nemandi minn til) svo ég nefni ekki ruglið og ofstækið á SÖGU og öðrum sorpstöðvum.
Hvað má til varnar verða vorum sóma?
Athugasemdir
Ja nú er stórt spurt. Mér datt nú í hug hvort menntunin hefði farið úr böndunum hahahahah en alveg er ég sammála þér með þessa ágætismenn. Þeir tala alltaf eins og guðsútvaldir spámenn í trúarofstækissöfnuðum og spá heimsendi nánast daglega. Með kveðju Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 28.3.2011 kl. 18:31
Já, Kolbrún. Það leikur enginn vafi í mínum huga á, að skólarnir hafa brugðist - ekki menntunin, því menntun fæst ekki (aðeins) í skólum. Við kennarar höfum of mikið verið að kenna "spurningar og svör" - og höfum of lítið verið að kenna nemendum að hugsa og taka sjálfstæða, ábyrga afstöðu. Eins og Margrét Pála hefur sagt: það þarf að skera skólakerfið upp - ekki niður.
Tryggvi Gíslason, 28.3.2011 kl. 21:39
Þetta er mjög líklega rétt hjá ykkur Margréti Pálu enda bæði að norðan eins og ég. Ég var nú bara að stríða þér með að nefna menntunina en samt smá undirtónn í því hjá mér. Mér hefur, eins og þú segir,fundist of oft vera innihaldslítil menntunin og minna lagt upp úr því að nýta það sem verið er að kenna. Einhver sagði " ég tók öll próf upp á 9 eða 10 en man ekki neitt af því"
En aftur að færslunni. Sumir eru bara þversum í tilverunni og sumir læra ekki neitt. Hjá sumum er þessi framkoma afleiðing af sjúkdómi sem ég ætla ekki að diskutera þar sem ég hef takmarkað vit á honum. :) Kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 28.3.2011 kl. 22:43
Já, mín kæra Kolbrún Stefánsdóttir - Kolla. Skólarnir hafa brugðist hlutverki sínu og við þurfum að "skera skólakerfið upp" - breyta skólunum, gera þá enn betri, af því að engin stofnun nema heimilin - fjölskyldan - er mikilsverðari í einu þjóðfélagi! En haltu áfram að stríða mér; ég hef gott af því.
Tryggvi Gíslason, 28.3.2011 kl. 23:49
Sæll aftur Tryggvi. Ég er með stríðnispúka á öxlinni og læt það stundum eftir mér að hlýða honum. Set mig ekki úr færi eftirleiðis að stríða þér svolítið fyrst þú tekur því svona vel. Held að hluti af þessu liggi hjá fjölskyldum þar sem því hefur verið komið inn hjá fólki að fagfólk viti best og það kallar á óöryggi foreldra. Man ekki til að það hafi vafist fyrir mér uppeldið á mínum dætrum sem ekki voru mikið á leikskólum. Allt er þetta víst best í bland. Besta kveðja Kolla
Kolbrún Stefánsdóttir, 29.3.2011 kl. 11:12
Eftir að sú nýja upplýsingaöld gekk í garð, tölvu og Google öldin, hljóta skólarnir að taka tillit til breyttra aðstæðna. Þarf nokkur að kunna eitthvað eða muna, nema þá rétt fyrir próf. Stórverkefni framundan hjá skólunum í endurskipulagningu. kveðja
Sigurður Ingólfsson, 29.3.2011 kl. 11:14
Já, Guðmundur. Allt væri þetta auðveldara, ef við hefðum aðeins góða kennara, góða nemendur og góða stjórnendur - er verst er þó bullið sem notað er til að breiða yfir!
Tryggvi Gíslason, 30.3.2011 kl. 09:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.