29.4.2011 | 23:24
Geta íslenskir bankamenn ekkert lært?
Lítið hafa forstöðumenn íslenskra banka lært frá hruni. Enn eitt dæmi um einfeldni, fávísi og ósvífni bankamanna eru orð Gunnars Helga Hálfdanarson, formanns stjórnar Landsbankans, í hádegisfréttum RÚV í dag, föstudag 29da apríl 2011. Formaðurinn sagði orðrétt: Það er bara yfirlýst stefna okkar keppinauta - og okkar, að til þess að standast í alþjóðlegri samkeppni verðum við að bjóða einhvers konar hóflegt hvatakerfi. Síðan talaði Gunnar Helgi um sig og aðra bankamenn sem ábyrga þjóðfélagsþegna.
Í rannsóknarskýrslu Alþingis 2010, sem þótti marka tímamót í sögu þjóðarinnar - en flestir virðast hafa gleymt - stendur, að mikil samkeppni hafi ríkt meðal bankastjóranna og enginn verið annars bróðir í leik og samkeppni og tortryggni verið öllu yfirsterkari. Síðan segir í skýrslunni orðrétt:
Smæð íslensks samfélags setur því mörk í margvíslegu tilliti. Íslendingar höfðu stormað inn á erlenda markaði, oft með miklum fyrirgangi, og drógu til sín athygli. Meðan fjármunirnir voru nægir höfðu menn gleymt smæð sinni og vanmætti gagnvart öðrum ríkjum. Þá virðist hafa horfið meðvitund um það hve íslenskt samfélag er í raun viðkvæmt og reynslan dýrmæt.
Enn er því svo haldið fram af íslenskum bankamanni, að til þess að standast öðrum snúning í alþjóðlegri samkeppni verðum við að bjóða einhvers konar hóflegt hvatakerfi. Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki. Geta íslenskir bankamenn ekkert lært?
Athugasemdir
Þetta er það sem kallast á Íslandi að vera öðrum gáfaðri ...
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 30.4.2011 kl. 12:40
Og ósvífnari. Fyrir utan Jóhönnuflokkinn.
Elle_, 30.4.2011 kl. 19:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.