6.8.2011 | 22:03
Íslensk umræðuhefð og nauðganir
Ofbeldi er forkastanlegt. Ofbeldi gegn börnum er ljótast af öllu ljótu. Nauðganir á Íslandi hljóta að vekja siðað fólk til umhugsunar. Hver er rót þessa ofbeldis?
Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum bendir á - eftir ógeðslega Þjóðhátíð í Eyjum - að finna þurfi rót nauðgana og vísar til heimila og skóla, mikilverðustu stofnana samfélagsins. Sennilegt er að flestir nauðgarar séu skemmdir, siðblindir og geðfatlaðir. Etv er uppeldi um að kenna - eða öllu heldur: nauðgarar hafa ekki hlotið neitt uppeldi. Nauðgara þarf að senda í betrunarhús - þar sem fagfólk með þekkingu og skilning leiðir nauðgurum fyrir sjónir villu síns vegar.
Englendingar segja það þurfi heilt þorp að ala fólk upp. Í raun þarf heila þjóð að ala fólk upp. Ljóst er að vestrænar þjóðir geta ekki aukið eyðslu meira en verða að sætta sig við kjör sín - og leita leiða til að bæta úr ofbeldi gagnvart fátæku fólki og sveltandi börnum.
Í stað þess að einblína á aukna neyslu í skjóli skuldasöfnunar - til að auka gróða auðmanna - eigum við að einbeita okkur að því að bæta siðferði, auka siðvit og bæta líðan fólks. Fyrsta skrefið er að auka kennslu í hagnýtri siðfræði í skólum - kennslu í mannasiðum - til þess að vinna bug á öllu ofbeldi, ekki síst ofbeldi gegn konum og börnum.
Nauðganir eru tíðari á Íslandi en í öðrum löndum sem við berum okkur saman við. Nauðganir á konum eru hins vegar af sama toga og ofbeldi í íslenskri umræðuhefð. Ofbeldi í orðum verður líka að linna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.