Samstaða um nýja stjórnarskrá

Björn Bjarnason ræðir í netpistli í gær um frumvarp stjórnlagaráðs Alþingis til stjórnskipunarlaga og segir, að enn sé ekki „tímabært fyrir aðra en sérstaka áhugamenn um störf stjórnlagaráðs að kynna sér tillögur þess að nýrri stjórnarskrá. Deilur um meðferð tillagnanna hafa verið og verða í sviðsljósinu frekar efni málsins.”

Hvers vegna er ekki tímabært fyrir aðra en sérstaka áhugamenn um störf stjórnlagaráðs að kynna sér tillögur þess að nýrri stjórnarskrá? Frumvarp stjórnlagaráðs til nýrra stjórnskipunarlaga hlýtur að vekja áhuga allra sem hafa áhuga á þróun lýðræðis eða er Björn Bjarnason að reyna að sundra þjóðinni í þessu mikilsverða máli til að tryggja hagsmuni gamla flokksræðisins? Hvers vegna fullyrðir Björn Bjarnason að deilur um meðferð tillagnanna hafi verið og verði í sviðsljósinu frekar en efni málsins? Þessi fullyrðing er í fyrsta lagi röng eins og þúsundir efnislegra athugasemda við störf stjórnlagaráðs sýna. Í öðru lagi væri sorglegt fyrir lýðræðissinna eins og Björn Bjarnson, að meðferð tillagna að nýrri stjórnarskrá, mikilsverðasta verkefnis íslenskra stjórnmála, verði í sviðsljósinu, ekki efni þess.

Og Björn Bjarnason heldur áfram og segir: „Sumir stjórnlagaráðsliðar láta eins og ekkert sé sjálfsagðara en tillögur þeirra séu lagðar beint fyrir kjósendur til ákvörðunar. Þeir hafi unnið frábært starf og náð samstöðu um niðurstöðuna og þess vegna eigi allir aðrir að geta sætt sig við hana. Á alþingi eru menn annarrar skoðunar.”

Án efa telja flestir – ef ekki allir fulltrúar í stjórnlagaráði Alþingis, sem Björn Bjarnason kallar stjórnlagaráðsliða, að þeir hafi unnið frábært starf, sem þeir og gerðu að mínum dómi og náðu auk þess samstöðu um erfið ágreiningsmál. Þetta er dæmi um frábært starf, lýðræðisleg vinnubrögð og málefnalega afstöðu, því að allt snýst líf okkar um að ná samstöðu og stjórnmál eru „list hins mögulega”.

Hvers vegna þarf í málefnalegri umræðu, sem ég geri ráð fyrir að Björn Bjarnason sé að reyna að efna til, að draga fram þessa afstöðu örfárra fulltrúa stjórnlagaráðs. Að sjálfsögðu fjallar Alþingi um frumvarp stjórnlagaráðs, hvað sem líður afstöðu einstaka stjórnlagaráðsliða, og vafalaust eru sumir alþingismenn annarrar skoðunar. Það er eðlilegt í lýðræðislandi þar sem ekki er amast við ólíkum skoðunum og ekki krafist pólitísks rétttrúnaðar. Hins vegar benda líkur til að meirihluti á Alþingi sé hlynntur grundvallaratriðum í frumvarpi stjórnlagaráðs.

Björn Bjarnason klikkir svo út með, að Alþingi sé stjórnarskrárgjafinn en ekki stjórnlagaráð. Eins og sumir aðrir atvinnustjórnmálamenn gleymir Björn Bjarnason því, að löggjafarþing lýðræðisríkja – þar á meðal Alþingi Íslendinga – þiggur vald sitt frá þjóðinni, enda er slíkt tekið fram í stjórnarskrám margra lýðræðisríkja og í frumvarpi stjórnlagaráðs Alþingis segir: Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar. Öll mikilvæg mál á að bera undir þjóðina eins og hið nýja lýðræði gerir ráð fyrir. Það er þetta sem er grundvöllur lýðræðis nýrrar aldar.

Það er þetta sem stefnt er að með nýrri stjórnarskrá: að efla lýðræði í landinu, auka áhrif kjósenda á kostnað atvinnustjórnmálamanna – auðvelda aðkomu almennings að stjórn landsins og koma í veg fyrir óheft flokksræði sem ríkt hefur á Íslandi um áratuga skeið. Þetta er lýðræði – þetta er hið nýja lýðræði.

Að sjálfsögðu fjallar Alþingi um frumvarp stjórnlagaráðs til nýrra stjórnskipunarlaga. En það er þjóðin sem ræður – og það er þjóðin sem á að ráða. Hið endanlega lýðræðislega vald er hjá henni. Hins vegar þarf víðtæk samstaða að nást um nýja stjórnarskrá – ný grundvallarlög. Að því ber öllum frjálslyndum lýðræðisöflum í landinu að vinna með málefnalegri umræðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er engin samstaða um þessar nýju stjórnarskrártillögur hins umboðslausa stjórnlagasráðs, Tryggvi, gerðu þér það ekki í hugarlund!

Jón Valur Jensson, 31.8.2011 kl. 01:53

2 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Hvers vegna heldurðu að það sé, Jón Valur?

Tryggvi Gíslason, 31.8.2011 kl. 09:42

3 Smámynd: Jón Kristjánsson

Mjög góður pistill hjá þér Tryggvi.....og auðvitað er hælbíturinn Jón Valur, einn allra versti afturhaldsskratti landsins, mættur til að andmæla þér fyrir hönd últra hægri óværunnar. Þvílík afköst hjá þessu liði í blogginu, það mætti halda að þetta fólk þyrfti ekki að sjá fyrir sér. Og allt mælt út á versta veg.....og orðbragðið, maður lifandi, kvislingar, landráðamenn, skrýmsli og fleira huggulegt skrækja þeir um forystulið þjóðarinnar. Þessir ódámar dæma sig sjálfir.....

Jón Kristjánsson, 31.8.2011 kl. 21:00

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það þarf naumast að taka það fram, að ÞESSI Jón Kristjánsson, sem skrifar með svo vanstilltum hætti, er EKKI hinn valinkunni Jón Kristjánsson fiskifræðingur, sem margir þekkja hér af Moggabloggi. Þetta er ekki sagt mér til varnar (enda engra varna þörf gegn kjánalega rakalausum hælbít sem þessum, það þekkja lesendur vefsíðna minna), heldur nefni ég þetta til að halda uppi heiðri fiskifræðingsins, bloggvinar míns og samherja í ýmsum málum.

Jón Valur Jensson, 1.9.2011 kl. 01:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband