1.9.2011 | 14:33
Ný stjórnarskrá er einnar messu virði
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var í fyrra lesin upp í skólum, leikhúsum og kirkjum og Blindrabókasafn hefur gefið hana út á hljóðbók. Skýrslan opnaði augu margra fyrir brestum í íslensku þjóðlífi og stjórnmálum og benti á leiðir til úrbóta. Verður til hennar vitnað um ókomin ár.
Nú liggur fyrir frumvarp til stjórnskipunarlaga drög að nýrri stjórnarskrá sem stjórnlagaráð Alþingis samþykkti einróma á dögunum. Frumvarpið er ekki síður þarflegt, og nú ber skólum að taka það til meðferðar og kynna nemendum eftir því sem aðstæður leyfa. Þá ætti að lesa það upp í öllum kirkjum og leikhúsum til að kynna almenningi efni þess og vekja til umræðu um lýðræði og mannréttindi sem eru mikilvægustu mál dagsins.
Frumvarpið að nýrri stjórnarskrá er í 114 greinum, níu köflum og um sex þúsund orð. Tekur innan við klukkustund að lesa það. Samsvarar lesturinn meðalmessu - og er frumvarpið sannarlega einnar messu virði.
Að sjálfsögðu nægir ekki að lesa frumvarpið, heldur verður að skýra það og ræða, enda fylgja því vandaðar skýringar frá hendi stjórnlagaráðs Alþingis sem styðjast má við. Þá ætti Endurmenntun HÍ að bjóða almenningi námskeið í stjórnskipunarlögum og fá formann stjórnlagaráðs Alþingis og aðrar hæfar konur og karla til þess að skýra frumvarpið.
Athugasemdir
„Stjórnlagaráð“ var nefnd ráðin af Alþingi til að gera tillögu að Stjórnarskrá. Nefndarálit eru ekki lesin upp í kirkjum..Ja , ég man ekki dæmi þess. Þessar kosningar (sem fáir höfðu áhuga á), ólögleg framkvæmd hennar og ólögleg talning. Varð þess valdandi að nefndarmenn virtust fá það á tilfinninguna að þeir væru Guðsútvaldir og það verk sem þeir höfðu komið sér saman um væri ósnertanlegt meistaraverk.Ekki væri gott ef allar nefndir....
Fyrirgefðu Tryggvi en það er þannig sem þetta kemur mér fyrir sjónir.
Snorri Hansson, 2.9.2011 kl. 02:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.