Skítlegt eðli íslenskra stjórnmála

Eins og áhugasamir lesendur vita, er kosið til þings í Danmörku í dag. Fyrir tveimur dögum voru sveitarstjórnarkosningar í Noregi og á mánudag kom Alþingi Íslendinga, elsta löggjafarþing Evrópu, saman til þess að ræða aðkallandi umbætur.

Fróðlegt er að bera saman yfirvegaða umræðu í þessum tveimur menningarlöndum, Danmörku og Noregi, og strákslega umræðu á Íslandi þar sem núverandi forseti talaði sem alþingismaður 1993 um skítlegt eðli þáverandi forsætisráðherra en var í gær kallaður forsetaræfill úr sama ræðustól.

Dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár megum við - sauðsvartur almúginn - hlusta á alþingismenn kýta um einskisverða hluti og þess á milli kasta skít í andstæðingana. Hefðum við götustrákar á Akureyri um 1950 mátt vera hreyknir af þessu orðbragði.

Orðræða íslenskra stjórnmála er ólík því sem gerist í Danmörku og Noregi. Þar er að sjálfsögðu tekist á og menn eru sannarlega ekki sammála, en nota ekki orðbragð götustráka en ræða um ágreiningsmál af hlutlægni og virðingu fyrir andstæðingunum.

Einnig hefði verið fróðlegt að fylgjast með skýringarþáttum í danska og norska sjónvarpinu. Þar búa stjórnendur yfir þekkingu, spyrja skynsamlegra spurninga og eru vel undir verk sitt búnir og lenda aldrei í karpi við viðmælendur sína eða ásaka þá um ósannindi, eins og tíðast í íslensku sjónvarpi.

Það hefur vakið athygli mína, að gamlir stjórnmálamenn, sem skrifa um stjórnmál í blöð, eru enn fastir í dómgirni og bundnir af ósiðum íslenskrar stjórnmálaumræðu. Styrmir, Ragnar Arnalds, Þorsteinn Pálsson, Eiður, Svavar Gestsson og Jón Baldvin hefðu getað lagt heilbrigðri umræðu lið og upplýst okkur – sauðsvartan almúgann – með yfirvegaðri umræðu og byggt á þekkingu og áratuga langri reynslu.

Ætla hefði mátt, að fullþroska menn, sem gegnt hafa stöfum alþingismanna, ráðherra, formanna stjórnmálaflokka, blaðamanna og verið ritstjórar og sendiherrar hefðu getað lagt lið upplýstri umræðu og stuðlað að heilbrigði skoðanamyndun.

Því miður. Þeir eru enn við sama heygarðshornið og slá sjálfa sig til riddara eða reyna að slá pólitískar keilur með hálfsannleika og dómgirni. Þetta er skítlegt eðli íslenskra stjórnmála.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Ég er sammála þér Tryggvi. Þetta er ömurleg staðreind!!

Eyjólfur G Svavarsson, 16.9.2011 kl. 11:21

2 Smámynd: Agla

Ég er færslunni sammála, í megindráttum.   

Mér finnst þetta áhyggjuefni í þingbundnu lýðræðisríki sem virðist þar að auki hlynnt fjölgun almennra  eða þjóðarkosninga um einstök málefni.

Ef við stöndum nágrannaþjóðum, eins og t.d. Danmörku, eftir í umræðumenningu virðist eðlilegt að leita hluta skýringarinnar í menntakerfi okkar, sem þú þekkir trúlega mjög vel.

Í viðtölum við grunnskólabörn frá ýmsum þjóðum er áberandi munur á hvort þau gefa einhvern rökstuðning fyrir sínum skoðunum og ályktunum eða ekki. Sumum hefur greinilega verið kennt að ef þau segja skoðun sína þurfi að fylga skýring á hvernig hún sé tilkomin.                                 Þau íslensku börn sem ég þekki svara  flest spurningunni um "hverns vegna finnst þér það?" með "Af því bara" svo mér hefur dottið í hug að hugsanlega sé ekki nóg rækt lögð við mótun rökfærslu tengdra skoðanaskipta á grunnskólastiginu.

Þú hefur trúlega mikla reynslu af umræðumenningarstigi nemenda sem fara í menntaskóla og þrautþekkir áreiðanlega þá hvatningu sem þeir fá á því sviði  meðan á menntaskólanáminu stendur.  

Mér finnst trúlegt að þú lumir á allskonar hugmyndum um hvernig bæta mætti umræðumenningu okkar  almennt innan menntakerfisins.

Það væri gaman að heyra hvaða leiðir þú sérð til bjargar

Agla, 16.9.2011 kl. 18:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband