26.9.2011 | 10:42
Hrun íslenskra stjórnmála
Meirihluti þjóðarinnar telur traust, heiðarleika, virðingu og jöfnuð skipta mestu í mannlegu samfélagi. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á orsökum falls bankanna segir hins vegar, að tortryggni og samstarfs- erfiðleikar hafi sett mark á samskipti stjórnmálamanna árin fyrir fallið og fólk með vafasama fjármálafortíð hafi haft sterka hvata til að komast yfir bankastofnanir og nýta sér þær í eigin þágu, eins og segir í skýrslunni.
Þrjú ár eru liðin frá hruni bankanna. Íslenskt stjórnmálakerfi hrundi um leið og bankarnir eða var það ef til vill þá þegar hrunið? Það varð því ekki aðeins kreppa í fjármálum þjóðarinnar heldur einnig kreppa í stjórnmálum Íslendinga. Það væri nú sök sér, en ofan á þetta bætist að ekkert hefur breyst. Tortryggni og samstarfserfiðleikar setja enn mark sitt á samskipti stjórnmálamanna og fólk með vafasama fjármálafortíð er enn að reyna að komast yfir fjármálastofnanir til þess að nýta sér þær í eigin þágu.
Ýmsir hafa trúað á visku mannanna. Það gerði Steinar bóndi undan Steinahlíðum í Paradísarheimt. Runólfur prestur svaraði bónda hins vegar, að ekki miklaðist honum, hve langt viska manna hefði náð að leiða þá - enda væri hún ekki stór. Að hinu dáist ég, hve lángt fáviska þeirra og jafnvel sérdeilis heimska þeirra, að ég nú segi ekki fullkomin blinda þeirra hefur náð að lyfta þeim. Ber ég mig að fylgja fávisku manna að öðru jöfnu, því hún hefur leitt þá leingra en viskan.
Við gamlir bændur og barnakennarar að austan höldum hins vegar áfram að trúa á visku manna og trúum því að þannig hafi átt að skilja háð Halldórs Laxness. Ástæða bankahrunsins var hvorki viska né heimska heldur siðleysi, ósvífni og græðgi. Til þess að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig og til þess að bæta ástand íslenskra stjórnmála og þjóðmála þarf að auka kennslu í siðfræði og heimspeki efla siðvit þjóðarinnar.
Þar verða tvær mikilsverðustu stofnanir samfélagsins að koma til: heimilin og skólinn. Til þess að auka traust, heiðarleika, virðingu og jöfnuð þurfa feður og mæður, kennarar, skólastjórar og aðrir uppalendur að leggjast á eitt sýna vilja sinn í verki eins og Alma Jenný Guðmundsdóttir móðir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.